Kaffi Nora ehf., félagið utan um rekstur veitingastaðarins Nora Magasin við Austurvöll, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð þess efnis á miðvikudag og er skiptafundur fyrirhugaður 30. nóvember næstkomandi.
Nora Magasin var lokað í byrjun ágúst en veitingastaðurinn opnaði fyrst í Pósthússtræti 9 árið 2013. Ekki hefur fengist uppgefið hvað framtíð rýmisins sem hýsti staðinn mun bera í skauti sér en viðræður eru sagðar standa yfir.
Sjá einnig: Nora Magasin skellir í lás eftir sólarlítið sumar
Í samtali við Vísi sagði einn eigenda Noru Magasin að lokunin í ágúst hafi meðal annars skrifast á erfiðan vetur og vætusamt sumar. Þá var staðnum lokað um nokkurra mánaða skeið vegna framkvæmda og reyndust breytingarnar dýrari en ráð hafði verið gert fyrir.
Geri fólk tilkall til skulda eða annarra réttinda á hendur Kaffi Nora ehf. er það hvatt til að senda kröfulýsingar á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Nora Magasin gjaldþrota

Tengdar fréttir

Þungt hljóð í veitingamönnum í Reykjavík
Slæm tíð og mikil þensla hefur haft áhrif á reksturinn.

Nora Magasin skellir í lás eftir sólarlítið sumar
Veitingastaðnum Noru Magasin við Austurvöll var lokað í byrjun ágúst og hefur núverandi eigendahópur sagt sig frá rekstrinum.