Liðið spilar undir sameiginlegu merkjum ÍA, Kára og Skallagríms og tryggði sér endanlega titilinn með 7-0 sigri á Fylki í lokaumferðinni í gær. Áður höfðu Skagamenn unnið 5-1 sigur á Blikum í óopinberum úrslitaleik mótsins fyrir aðeins þremur dögum.
ÍA strákarnir enduðu með 42 stig alveg eins og KR/KV en voru með tólf marka forskot í markatölu. Ekkert lið skoraði meira í deildinni en liðið var með 63 mörk í 18 leikjum.
Blikar enduðu aðeins einu stigi á eftir toppliðunum og Skagamenn tóku titilinn því með góðum endaspretti. Blikar misstigu sig á lokasprettinum.
Þjálfararnir hjá ÍA/Kára/Skallagrími eru Sigurður Jónsson og Elinbergur Sveinsson en þeir eru heldur betur að koma með þá upp á hárréttum tíma.
Mörk ÍA í gær skoruðu Ísak Bergmann Jóhannesson (2 mörk), Bjarki Steinn Bjarkason, Ólafur Karel Eiríksson, Stefán Ómar Magnússon, Sigurður Hrannar Þorsteinsson og Þór Llorens Þórðarson.
Ísak Bergmann Jóhannesson er enn í 3. flokki og verður það líka sumarið 2019 en hann er sonur Jóhannesar Karls Guðjónssonar þjálfara ÍA. Nú er bara spurningin hvort pabbi taki strákinn upp í meistaraflokkinn í Pepsideildinni næsta sumar.
Markahæstir hjá Skagaliðinu á Íslandsmótinu í sumar voru þeir Þór Llorens Þórðarson og Stefán Ómar Magnússon sem báðir skoruðu 10 mörk. Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði 8 mörk.
Þetta er í fyrsta sinn í þrettán ár sem ÍA vinnur 2. flokkinn. Það gerðist síðast árið 2005 en þá voru í aðalhlutverki í liðinu menn eins og Arnar Már Guðjónsson og Jón Vilhelm Ákason.
Garðar Gunnlaugsson, leikmaður meistaraflokksins, er ánægður með strákana og hrósar þeim á Twitter.
2. flokkur ÍA ljúka ótrúlegu tímabili með Íslandsmeistaratitli! Einnig má nefna að hluti þeirra skiluðu Skallagrím upp um deild og svo var Kári mjög nálægt því að komast upp í Inkasso. Framtíðin er björt á skaganum ef haldið er rétt á spilunum.
— Gardar Gunnlaugsson (@Gunnlaugsson9) September 20, 2018
Fyrir áhugasama þá er hægt að horfa á allan leikinn frá því gær hér fyrir neðan.