
Stærsta fjárhæðin, 25 milljarðar króna, fer í jarðgöng undir Fjarðarheiði, en þó ekki fyrr en á árunum 2029 til 2033, sem þýðir að hlé verður á jarðgangagerð eftir að Dýrafjarðargöng klárast árið 2020.

Engin fjárveiting er í Sundabraut. Stokkur fyrir Miklubraut er hins vegar kominn inn og það í tengslum við borgarlínu. Lagt er til að ríkissjóður greiði tíu milljarða í stokk milli Kringlumýrarbrautar og Snorrabrautar á árunum 2024 til 2033 en tekið fram að eftir sé að ákveða kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Tvöföldun Reykjanesbrautar mun ganga hægar en margir ætluðu. Þannig verður kaflinn milli Hvassahrauns og Straumsvíkur ekki kláraður fyrr en á tímabilinu 2024 til 2028 og kaflinn frá Fitjum í Njarðvík að Leifsstöð klárast ekki fyrr en á tímabilinu 2029-2033.
Stöð 2 greindi frá því í gær að kafli Reykjanesbrautar í Hafnarfirði, milli Kaldárselsvegar og Krísuvíkurvegar, yrði tvöfaldaður á næstu tveimur árum.
Breikkun helstu samgönguæða út frá Reykjavík er fjárfrek í áætluninni. Breikkun Suðurlandsvegar út úr borginni frá Rauðavatni upp fyrir Lækjarbotna er áætluð á árunum 2024 til 2028.
Kafli Suðurlandsvegar við Grafarholt, milli Hádegismóa og Vesturlandsvegar, verður þó tvöfaldaður á næsta ári. Þá er sömuleiðis áformað að Vesturlandsvegur um Mosfellsbæ, milli Skarhólabrautar og Hafravatnsvegar, verði breikkaður í fjórar akreinar á næsta ári.
Breikkun milli Hveragerðis og Selfoss hefst í vetur og á að klárast árið 2022. Reykjavegur í Biskupstungum á að klárast 2020. Ný brú á Ölfusá við Selfoss er áætluð á tímabilinu 2024 til 2028, einnig breikkun Suðurlandsvegar austan Selfoss að Skeiðavegamótum.

Vestfjarðavegur um Gufudalsveit fær nærri sjö milljarða fjárveitingu á næstu fjórum árum en með fyrirvara um að niðurstaða fáist um veglínu. Þar er deilt um Teigsskóg og hugmyndir um brú yfir mynni Þorskafjarðar.

Norðanlands eru nýjar brýr á Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljót áætlaðar á árunum 2024 til 2028. Endurbætur Bárðardalsvegar vestri eiga að hefjast 2021 en dreifast til ársins 2033.

Vegur yfir Brekknaheiði sunnan Þórshafnar fær fjárveitingu á árunum 2023-2026, vegur yfir Öxi á árunum 2028-2032 og leiðarstytting um Öræfasveit, milli Morsár og Kotár, á tímabilinu 2029-2033. Nýr vegur um Lónsveit, með brú á Jökulsá í Lóni, er á dagskrá 2029-2033.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: