Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar telur óásættanlegt að ekki sé gert ráð fyrir framkvæmdum við Fjarðarheiðargöng í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt henni eiga framkvæmdirnar að hefjast á öðru tímabili áætlunarinnar.
Í ályktun sem bæjarráðið samþykkti lýsir það vonbrigðum með samgönguáætlunina. Framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjist ekki fyrr en eftir hartnær áratug.
„Það er óásættanlegt að bíða svo lengi að fá öryggi vegfararanda [sic] tryggt og mannsæmandi samgöngur við einu tengingu landsins við evrópska vegakerfið,“ segir í ályktuninni.
Ráðið telur illskiljanlegt að gera eigi hlé á jarðgangnaframkvæmdum svo lengi. Krefst það þess að hafist verði handa við gerð Fjarðarheiðarganga þegar framkvæmdum við Dýrafjarðargöng lýkur.
