Lokað er fyrir alla umferð um Hvalfjarðargöng vegna flutningabíls sem bilaði, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem send var út skömmu eftir klukkan 16.
Búast má við að lokunin vari í a.m.k. eina klukkustund og er vegfarendum bent á að fara um Hvalfjörðinn. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa engin slys orðið á fólki en unnið er að því að koma bílnum upp úr göngunum. Beðið er eftir dráttarbíl sem mun aðstoða á vettvangi.
Ekki fengust upplýsingar um það hvar bíllinn er staðsettur í göngunum.
Uppfært klukkan 16:44:
Búið er að koma flutningabílnum út úr Hvalfjarðargöngunum. Opnað hefur verið aftur fyrir umferð um þau, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.
