„Það eru skipulagsbreytingar fram undan hjá okkur. Við höfum farið í stefnumótun og það er von á fréttum að hausti eins og við sögðum áður,“ segir Guðni en ekki virðist liggja fyrir að nýja staðan verði kölluð yfirmaður knattspyrnumála eftir allt saman.
Veit að menn bíða með óþreyju eftir þessu
„Við erum að fara í gegnum þessar skipulagsbreytingar og þá sjáum við hvernig ráðningum verður hagað. Ég veit að menn bíða með óþreyju eftir þessu en þetta fer að koma í ljós, sama hvað þessi tiltekna staða mun heita og svo framvegis. Það eru skipulagsbreytingar fram undan og það verður mönnuð staða í þá veru sem hingað til hefur verið kölluð yfirmaður knattspyrnumála.“Formaðurinn hefur verið margoft spurður út í þetta mál síðan hann tók við starfinu og svörin öll á sama veg. Það sé mikilvægt að vinna málið vel og það sé í vinnslu. Eftir stendur spurningin hvort það sé eðlilegt að það taki yfir 600 daga að ráða í starfið?
Vildum vanda til verka
„KSÍ hefur verið til í 70 ár án þess að ráða yfirmann knattspyrnumála. Þessi staða var ekki inn á fjárhagsáætlun síðasta árs en er komin inn á fjárhagsáætlun núna. Það hefur verið lögð áhersla á það í hreyfingunni að fjárhagsáætlunum sé fylgt,“ segir Guðni og bætir við að skammt sé í að loksins verði ráðið í stöðuna.„Í fjárhagsáætluninni var gert ráð fyrir því að eftir sumarið yrði ráðið í þessa stöðu. Við vildum líka vanda vel til verka hvernig við breytum okkar skipulagi til framtíðar. Tímabilinu er nýlokið og það mun væntanlega skýrast í þessum mánuði hvað við ætlum að gera.“