Gjáin í breska Íhaldsflokknum vegna útgöngumála breikkar og dýpkar. Þetta kom í ljós í gær á fyrsta degi landsfundar flokksins, sem haldinn er í Birmingham og er sá síðasti fyrir útgöngu.
Sjálf kallaði Theresa May forsætisráðherra eftir því að flokksmenn fylktu sér um útgöngustefnu hennar, sem felur meðal annars í sér áframhaldandi aðild að tollabandalagi ESB og ESB segir ekki ganga upp.
Priti Patel, áður ráðherra í stjórn May, sagði að Bretar ættu ekki undir neinum kringumstæðum að samþykkja áætlun forsætisráðherrans. Þeir ættu heldur að búa sig undir samningslausa útgöngu.
Jacob Rees-Mogg, einn leiðtoga útgöngusinna innan flokksins, spáði því svo að hvorki breska þingið né ESB myndu samþykkja áætlunina. Ekki þyrfti þó að óttast samningslausa útgöngu.
