Handbolti

Söguleg útsending á Selfossi í kvöld: Dómararnir verða með hljóðnema á sér

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans mæta Val í kvöld.
Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans mæta Val í kvöld. Fréttablaðið/eyþór
Tvö af bestu handboltaliðum landsins, Selfoss og Valur, mætast í stórleik í 5. umferð Olís-deildar karla í kvöld klukkan 19.30 en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 19.15.

Blað verður brotið í útsendingunni í kvöld því að dómarar leiksins, Svavar Pétursson og Ingvar Guðjónsson, verða með hljóðnema á sér og verður því hægt að heyra hvað þeir segja við og við í útsendingunni.

Til stendur að gera þetta í öllum stórum útsendingum Stöðvar 2 Sports í Olís-deildinni á þessu tímabili en þetta verður prófað í fyrsta sinn í Hleðsluhöllinni í kvöld.

Enn frekar stendur svo til á næstunni að innleiða Video proof-dómgæslu þar sem að dómarar leikja í stórum útsendingum geta notast við myndbandsupptökur til að skoða ákveðna dóma.

Þetta tvennt hefur verið notað í dönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu og vakið stormandi lukku en handboltaáhugamönnum hefur þótt áhugavert að fylgjast með störfum dómara og fá betri innsýn í þeirra ákvarðanir á meðan á leik stendur.

Selfoss og Valur eru bæði ósigruð á tímabilinu með sjö stig eftir fjóra leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×