Landsbankinn verður fyrsti bankinn á Íslandi og þriðja fjármálafyrirtækið í Evrópu til að innleiða nýja greiðslulausn VISA sem felur í sér að hægt verður að greiða fyrir vörur og þjónustu með símanum einum og sér. Töluverð reynsla er af þessari lausn í Bandaríkjunum.
„Með því að ná í kortaappið getur þú notað símann alveg eins og þú sért með kortið í hendinni um allan heim,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, í samtali við Markaðinn, en hún hefur sjálf prófað appið undanfarnar vikur. „Þetta getur einfaldað lífið á margvíslegan hátt, til dæmis þegar maður fer út að hlaupa og skilur veskið eftir heima.“
Kortaappið var gert aðgengilegt í Google Play Store í byrjun október og er nú í prófunum. Skrá þarf kortaupplýsingar í appið en óþarfi er að opna appið til að greiða. Einungis þarf að opna símann og leggja hann að posanum. Þremur sekúndum eftir að færslan fer í gegn fær viðkomandi tilkynningu um viðskiptin í símann.
Lilja Björk segir að Landsbankinn hafi sett stafræna þróun í forgang og að samstarfið við VISA komi sér vel í þeim efnum.
„Við sláum nokkrar flugur í einu höggi með því að vera í samstarfi við stórt fyrirtæki sem sér um þróun og útbreiðslu á alþjóðavísu. Þá getum við nýtt hönnuði og þróunarteymi okkar í önnur stafræn verkefni. Eftir að við innleiddum nýtt grunnkerfi í fyrra höfum við getað sett aukinn kraft í að búa til stafrænar lausnir fyrir viðskiptavini.“
Fyrst um sinn verður aðeins hægt að hlaða appinu niður í Android-símum. Það verður ekki aðgengilegt í iPhone-símum fyrr en Apple opnar fyrir Apple Pay á Íslandi.