Elizabeth Penelope Westhead, 53 ára kona sem aldrei hefur haft lögheimili á Íslandi, er nýr stjórnarformaður hjá félaginu Viskubrunni ehf. sem heldur utan um vefsíðuna Tekjur.is. Á vefsíðunni er hægt að kaupa sér upplýsingar um tekjur og fjármagnstekjur allra Íslendinga árið 2016.
Óhætt er að segja að skiptar skoðanir séu á tilvist síðunnar. Einstaklingar henni mótfallnir hafa farið fram á lögbann á starfsemi hennar en ekki haft erindi sem erfiði. Vefsíðan er til skoðunar hjá Persónuvernd. Forsvarsmenn síðunnar segjast innan ramma laganna og vísa til greinar í lögum um tekjuskatt.

Útvegaði gögnin fyrir ónefndan aðila
RÚV greindi frá því í gær að tveir aðilar hefðu fengið afhentar til útgáfu skattskrár Íslendingar frá Ríkisskattstjóra vegna álagningarásins 2016. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, talsmaður og lögmaður Tekjur.is, hefur sagt að forsvarsmenn vefsins hafi fengið skattskrána hjá Ríkisskattstjóra.
Annar var Sigurjón Þorbergsson sem hefur fengið skrána til prentunar síðan um árið 1960. Skrána fái hann útprentaða og þurfi að skila innan sex vikna. Hann neitar tengslum við Tekjur.is.
Hinn er Hrannar Pétursson, ráðgjafi og fyrrverandi forsetaframbjóðandi. Hrannar sagðist í samtali við RÚV hafa útvegað gögnin fyrir viðskiptavin sinn, ónefndan aðila, og að trúnaður ríkti milli sín og viðskiptavina.

Bræður frá Húsavík
Félagið Viskubrunnur ehf. rekur vefinn Tekjur.is. Voru Jón Ragnar Arnarson og Víðir Pétursson skráðir fyrir félaginu. Jón sem stjórnarformaður og Víðir Pétursson sem varamaður.
Athygli vekur að Hrannar Pétursson, sem fékk gögnin hjá skattskrá, og Víðir Pétursson, sem er varamaður hjá Viskubrunni, eru bræður frá Húsavík. Hrannar er fæddur árið 1973 og Víðir fjórum árum fyrr.
Leit blaðamanns á tengslum Hrannars og Víðis leiddi það meðal annars í ljós að þeir voru saman í hljómsveit á árum áður, sex manna sveitinni Gloríu á Húsavík. Fjallað var um sveitina í Degi árið 1990 og má sjá greinina efst í fréttinni.

Elisabeth í Blackpool
Breyting varð á stjórn Viskubrunns þann 18. október síðastliðinn eins og vikið var að í inngangi fréttarinnar. Jón Ragnar er hættur í stjórninni og nú fer fyrir henni Elizabeth Penelope Westhead.
Heimilisfang félagsins var flutt að Vatnsstíg 3 í miðbæ Reykjavíkur þar sem Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er með lögmannsstofu sína.
Litlar upplýsingar er að finna um nýjan stjórnarformann, Elizabeth Penelope Westhead, fyrir utan að hún hefur verið og er skráð fyrir hinum ýmsu félögum í Bretlandi, ýmist sem ráðgjafi eða stjórnandi Hún er komin með íslenska kennitölu, fædd árið 1965 og hefur samkvæmt hlutafélagaskrá í Credit Info aldrei haft lögheimili á Íslandi.
Hún er skráð til heimilis í Blackpool á Englandi.
Í umfjöllun um Panamaskjölin á sínum tíma kom í ljós að í stjórnum eignarhaldsfélaga auðugs fólks, sem skráð voru til dæmis á Bresku-Jómfrúreyjum, sátu erlendir lögmenn hvers hlutverk var að þjóna eigendum fjármuna.

Fráfarandi stjórnarformaður segist ekkert vita
Jón Ragnar Arnarson, fráfarandi stjórnarformaður hjá Tekjur.is, svaraði símtali blaðamanns sem lék forvitni á að vita frekari deili á Elizabeth Penelope Westhead sem tók við stöðu hans sem stjórnarformaður. Hver hún væri.
„Ég veit það ekki. Ég sé ekki um að ráða einn eða neinn,“ segir Jón Ragnar. Vissulega væri hún tekin við sem stjórnarformaður og að hans samþykki eins og sjá má á fundargerðinni að neðan. Hann hefði samt enga hugmynd um hver hún væri.
Fundargerð frá stjórnarfundi Viskubrunns, sem fram fór þann 18. október, má sjá að neðan. Á fundinum voru breytingar á stjórninni og heimilisfangi á dagskrá.

Jón Ragnar sagði eðlilegra að beina fyrirspurnum til Vilhjálms eða senda fyrirspurn á info@tekjur.is. Hann væri ekki tengdur Tekjur.is á nokkurn hátt lengur.
Hvorki náðist í Víði Pétursson né Vilhjálm H. Vilhjálmsson við vinnslu fréttarinnar en fyrirspurn hefur verið send á netfang vefsins.