Miklar líkur eru á því að flak Lion Air farþegaþotunnar sem fórst í Indónesíu sé fundið. Leitarmenn telja sig hafa fundið staðsetningu flaksins og er þess nú beðið að það verði staðfest, þegar kafarar komast á svæðið. Vélin hrapaði í sjóinn um þrettán mínútum eftir flugtak frá flugvellinum í Jakarta með 189 manns innanborðs.
Um var að ræða glænýja Boeing 737 Max 8 og hefur slysið vakið upp spurningar um öryggi vélanna en einnig um öryggi flugrekstursins í Indónesíu en skammt er síðan flugfélög í landinu voru tekin af svörtum lista Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.
Þá er einnig talið að leitarmenn hafi komist að því hvar flugriti flugvélarinnar, samkvæmt AP fréttaveitunni. Fundur hans gæti varpað ljósi á orsök slyssins. Sérfræðingar frá Boeing eru komnir til Indónesíu og munu þeir taka þátt í að rannsaka hvað kom upp á. Bráðabirgðagögn benda til þess að hraði flugvélarinnar hafi verið óhefðbundinn og hæðin sömuleiðis.
Sjóher Indónesíu segir að um 22 metra langur hlutur hafi fundist á um 32 metra dýpi. Til stóð að skanna svæðið betur áður en kafarar yrðu sendir niður.
