„Því miður er fjölmiðlaumræða um heilbrigðismál oft á afar neikvæðum nótum og orð eins og úrræðaleysi, niðurskurður, mannekla og fjársvelti eru algeng. Fréttir af sumarlokunum, kjaradeilum, biðlistum og miklu álagi á heilbrigðisstarfsfólk eru nánast daglega á síðum fjölmiðla,“ rekur Magnús í leiðaranum.
Magnús segir mikilvægt að fjalla um málefni heilbrigðiskerfisins með gagnrýnum hætti í fjölmiðlum. „Það er afar mikilvægt að umfjöllun fjölmiðla um þennan málaflokk sé yfirveguð, byggð á staðreyndum og að reynt sé að forðast gífuryrði og upphrópanir,“ skrifar hann.
Þá segir Magnús að reglulega rati á síður fjölmiðla umfjallanir um erfið mál einstakra sjúklinga. „Stundum er um að ræða lýsingar sjúklinga eða aðstandenda þeirra á samskiptum sínum við heilbrigðisstarfsfólk þar sem kvartað er yfir því að viðkomandi hafi ekki fengið viðhlítandi þjónustu eða verið neitað um þjónustu. Jafnframt eru oft dregnar þær ályktanir að slíkar lýsingar á högum einstaklinga lýsi kerfinu eða þjónustunni í heild,“ fullyrðir hann.

Magnús segir síður fjölmiðla ekki rétta vettvanginn „til að ræða eða útkljá“ kvartanir undan heilbrigðiskerfinu því aðeins önnur hlið málsins sé rædd. „Alltaf er hætt við að umræðan verði mjög tilfinningahlaðin og einkennist af upphrópunum og gífuryrðum.“
Í leiðara Læknablaðsins er síðan sagt æskilegt að ritstjórar og ábyrgðarmenn helstu fjölmiðla landsins setjist niður með forsvarsmönnum heilbrigðiskerfisins til að ræða „hreinskilnislega um hvernig best sé að fjalla með ábyrgum og yfirveguðum hætti um heilbrigðismál, þjónustunni til framdráttar, og hvernig koma megi í veg fyrir að lýsingar sem oft eru settar fram í mikilli reiði og geðshræringu séu gerðar að fréttaefni í fjölmiðlum.“