Handbolti

Kristinn: Það er heitt undir okkur öllum

Þór Símon skrifar
Mikil barátta í leiknum í kvöld.
Mikil barátta í leiknum í kvöld. vísir/vilhelm
„Andinn er ekki góður. Fjórði tapleikurinn í röð þar sem við eigum ekki sjens gegn Haukum í seinni hálfleik. Þetta eru gríðarleg vonbrigði,“ sagði Kristinn Guðmundsson, einn af tveimur þjálfurum ÍBV, eftir fjórða tap Íslandsmeistaranna í röð gegn Haukum í kvöld, 32-26.

En hvað er eiginlega að valda því að ríkjandi Íslandsmeistarar séu að spila jafn illa og raun ber vitni?

„Það getur verið svo margt. Við reynum að horfa til sóknar og varnarleiks og finna lausnir en svo er spurningin hvað veldur að við klikkum á öllum þessum færum þar sem hann ver eins og þýskur atvinnumaður. Það hljóta því að vera skotin okkar sem eru að klikka,“ sagði Kristinn en Grétar var með í kringum 50% markvörslu og Andri Sigmarsson Scheving varði 5 af 7 vítum Eyjamanna.

ÍBV er núna í 10. sæti Olís deildarinnar með jafnmörg stig og Grótta sem er í fallsæti og á í þokkabót leik til góða. Í ljósi þess er tímabært að segja að krísa sé í Vestmanneyjum?

„Það má kalla þetta hvað sem er en við erum ekki ánægðir með stöðuna. Við þurfum samt að átta okkur á að svona er staðan á okkur núna. Við erum þar sem við erum og þurfum að hafa fyrir öllu,“ sagði Kristinn og hélt áfram.

„Það þýðir því ekkert fyrir okkur að vera hátt uppi með hvar við eigum að vera. Við erum þar sem við erum og þurfum að vinna okkur úr því,“ sagði Kristinn sem gefur lítið fyrir að sætið undir honum og Erlingi Richardssyni sé að hitna og segir að allir í liðinu, þjálfarar og liðsmenn þurfi að lýta í eigin barm.

„Það er heitt undir okkur öllum því við viljum meira. Það er miklu meira atriði að við setjum á okkur meiri kröfur. Við eigum að bjóða okkur sjálfum og okkar fólki upp á betri handbolta en þetta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×