Umfjöllun og viðtöl: KA - Valur 20-22 | Valsarar sóttu tvö stig í KA-heimilið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Anton Rúnarsson bar uppi sóknarleik Vals í dag.
Anton Rúnarsson bar uppi sóknarleik Vals í dag. vísir/vilhelm
Valsmenn gerðu góða ferð norður yfir heiðar og lögðu KA-menn að velli, 20-22, í 10.umferð Olís-deildar karla í KA-heimilinu í kvöld eftir spennandi lokamínútur.

Það var snemma ljóst í hvað stefndi þar sem bæði lið sýndu mikla hörku í varnarleiknum strax á fyrstu mínútum leiksins.

KA-menn tóku frumkvæðið í leiknum og leiddu með sex mörkum gegn þremur um miðjan fyrri hálfleik. Sóknarleikur Valsmanna ekki til staðar fyrsta korterið en eftir leikhlé Snorra Steins á 16.mínútu komu þrjú mörk á einni mínútu og staðan skyndilega jöfn. Þannig hélst það út hálfleikinn. Staðan í leikhléi 9-9. 

Jafnræðið hélt áfram í síðari hálfleik en Valsarar virtust svo ætla að sigla fram úr um miðbik síðari hálfleiksins. Uppstilltur sóknarleikur gestanna fór að rúlla betur á meðan KA-menn áttu í erfiðleikum með að opna Valsvörnina. Munurinn varð þó aldrei meiri en tvö mörk.

Fór að lokum svo að Valur vann tveggja marka sigur, 20-22, þar sem Agnar Smári gerði út um leikinn fimmtán sekúndum fyrir leikslok.

Afhverju vann Valur?

Þetta var hnífjafn leikur þar sem sigurinn hefði svosem alveg getað lent hvoru megin sem er. Það eru mikil gæði í Valsliðinu og líklega kom það þeim yfir línuna á endanum.



Hvað gekk illa?

Stórskytturnar fá þennan lið í dag. Óhætt er að segja að aðalskyttur beggja liða hafi ekki unnið fyrir kaupinu sínu í dag.

KA-megin var Áki Egilsnes í miklum vandræðum lengstum en steig þó upp þegar á leið. Bosníski risinn Tarik Kasumovic var einnig með slæma skotnýtingu.

Sama má segja um Róbert Aron Hostert og Agnar Smára hjá Val enda eyddu þeir löngum stundum á varamannabekknum. Róbert með eitt mark úr sex skotum og Agnar var ekki áberandi í sóknarleik Vals. Fær þó prik fyrir að stíga upp í lokasókninni og tryggja gestunum sigurinn.

Bestu menn?

Afskaplega auðvelt val í dag. Markverðirnir Daníel Freyr Andrésson (Val) og Jovan Kukobat (KA) voru menn leiksins. Báðir með góða hlutfallsmarkvörslu og voru oft á tíðum að verja dauðafæri með glæsibrag.

Anton Rúnarsson og Magnús Óli Magnússon verða líka að fá hrós fyrir að bera uppi sóknarleik Hlíðarendaliðsins, nánast óstuddir. Anton átti heilsteyptan leik á meðan Magnús Óli steig upp á mikilvægum augnablikum og sýndi oft á tíðum stórkostleg tilþrif enda stútfullur af hæfileikum.



Hvað er næst?

KA heimsækir Halldór Jóhann Sigfússon og lærisveina hans í FH í Kaplakrika næstkomandi sunnudag. Valsmenn fá hitt Hafnarfjarðaliðið, Hauka, í heimsókn degi síðar.

 

Guðlaugur: Alltaf gott að koma norður
Þjálfarateymi Valsvísir/vilhelm
Guðlaugur Arnarsson, annar af þjálfurum Vals, var sigurreifur í leikslok í KA-heimilinu í kvöld.

„Virkilega ánægður með að vinna leikinn. Við erum virkilega þakklátir fyrir þessi tvö stig á erfiðum útivelli í frábærri stemningu á móti góðu KA-liði.“

„KA-menn byrjuðu leikinn mjög vel. Voru að spila sína 6-0 vörn vel og Jovan var að verja mjög vel, bæði úr opnum færum og utan af velli. Það var að gera okkur mjög erfitt fyrir. Þess vegna náðu þeir að hanga inn í leiknum. Þetta var barátta tveggja varna,“ segir Guðlaugur.

Valur hefur unnið öll landsbyggðarliðin á útivelli í vetur, það er ÍBV, Akureyri og KA. Guðlaugur sjálfur af landsbyggðinni, sér hann um að brýna strákana fyrir ferðalögin úr borginni?

„Já klárlega. Sérstaklega hérna á Akureyri. Ég vil helst ekki tapa leik á Akureyri. Það er alltaf gott að koma norður,“ sagði Gulli sem lék með sameinuðu liði Akureyrar fyrir nokkrum árum við góðan orðstír.

Valsarar sitja í 3.sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Hauka og kveðst Guðlaugur ánægður með þróunina í leik liðsins.

„Við erum mjög ánægðir með stígandann í liðinu hjá okkur þannig séð. Sóknarleikurinn er aðeins undir pari, við þurfum að bæta hann en það er eitthvað sem við erum að vinna í á æfingum.“

 

Stefán: Vorum í basli sóknarlega og Daníel algjörlega magnaður
Stefán Árnasonvísir/bára
„Þetta er svekkjandi. Þetta var hörkuleikur og við vorum í fínum leik lengi vel. Þeir náðu ákveðnum tökum á leiknum en það munaði litlu að við næðum að gera leik úr þessu. Valur voru bara aðeins sterkari en við í dag,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari KA, í leikslok.

Leikurinn var jafn allan tímann og hefði sigurinn alveg eins geta endað KA-megin. Fannst Stefáni sigur Vals verðskuldaður?

„Valur vann þannig að þeir áttu sigurinn skilið. Við vorum í basli sóknarlega. Valur spilaði frábæra vörn og Daníel þar fyrir aftan algjörlega magnaður. Jovan var líka góður og vörnin okkar var góð þannig að þetta var leikur tveggja frábærra markvarða og góðra varna,“ sagði Stefán.

KA-menn virtust geta skorað að vild í síðustu viku þegar þeir heimsóttu Íslandsmeistara ÍBV en í kvöld var sóknarleikurinn öllu slakari. Hvað veldur að mati þjálfarans?

„Við vorum oft að fá ágætis færi en náðum ekki að klára þau nógu vel. Stundum er þetta bara svona. Stundum gengur allt upp en núna voru skotin ekki alveg nægilega góð og sóknarárasirnar ekki alveg nógu góðar enda að spila við eitthvað albesta varnarlið deildarinnar,“ sagði Stefán.





Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira