Úkraínsk yfirvöld hafa sakað Rússa um að skjóta á og hertaka nokkur skip úkraínskra yfirvalda undan strönd Krímskaga.
Greint er frá þessu á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en Reuters sagði frá því fyrr í dag að Rússar hefðu stöðvað þrjú skip á vegum úkraínska sjóhersins sem voru á leið til Asovshafsins í gegnum Kerch-sundið.
Eru Rússarnir sagðir hafa komið stóru flutningaskipi fyrir undir brú sem er á yfirráðasvæði Rússa. Hafa ásakanir gengið á milli ríkjanna um ógnandi hegðun.
BBC segir úkraínsk stjórnvöld nú saka rússnesk stjórnvöld um að hafa hertekið tvö herskip og dráttarbát. Eru tveir skipverjar sagðir hafa meiðst í átökum.
Spenna hefur aukist í samskiptum ríkjanna vegna hafsvæðisins við Krímskaga, sem Rússar hertóku árið 2014.
Rússar höfðu sakað Úkraínumenn um að hafa farið ólöglega inn á rússneskt hafsvæði. Úkraínski sjóherinn segir í yfirlýsingu að siglt hafi verið á herskipin Berdyansk og Nikopol þegar reynt var að snúa þeim í burtu. Dráttarbáturinn hafi verið neyddur til að stöðva för.
Rússar höfðu áður sent tvær orrustuþotur og tvær þyrlur til að fylgjast með för úkraínsku skipanna.
Saka Rússa um að hafa hertekið þrjú skip
Birgir Olgeirsson skrifar
