Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í liðinni viku dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuskírteinis auk brots í nánu sambandi.
Maðurinn játaði greiðlega sök, meðal annars að hafa ráðist að sambýliskonu sinni, kýlt í höfuð og líkama hennar, bitið í nef hennar og tekið hana hálstaki. Hlaut hún af mar, bólgur og eymsli víðs vegar um líkamann auk sárs á nefi.
Maðurinn hefur í þrígang gengist undir sátt og í fjórgang hlotið dóm vegna umferðar- og fíkniefnalagabrota. Brotin nú voru framin fyrir uppkvaðningu tveggja nýlegra dóma í málum hans og var honum því dæmdur hegningarauki. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að hann hefur nýlega lokið meðferð og játaði brotin greiðlega.
Beit kærustu sína í nefið
Jóhann Óli Eiðsson skrifar
