
Hann segir að hagkerfið hafi sýnt það undanfarinn áratug að það hafi mikla burði til að takast á við áföll bæði hvað varðar viðbrögð á vinnumarkaði og stjórnvöld búi að þeirri reynslu síðasta áratugar hvernig megi styrkja viðnámsþróttinn í efnahagslífinu.
Margir að tala sig í annað hrun
Snorri Jakobsson, greinandi hjá Capacent, segir að margir séu að tala sig inn í annað fjármálahrun. Staðan sé víða nokkuð góð, hótel í Reykjavík séu til dæmis uppbókuð. Fari svo að WOW air verði gjaldþrota myndi það líklegast leiða til lítils háttar samdráttar sem verði eins og hver annar snjóskafl sem við höfum farið í gegnum. „Fyrirtækin sem standa illa munu eflaust ekki lifa það af en það er gangur lífsins. Lánveitendur til ferðaþjónustu gætu setið eftir með sárt ennið.“

Ólíklegt að ríkið eignist WOW
Að sögn Jóns Bjarka eru Icelandair Group og WOW air skilgreind sem kerfislega mikilvæg fyrirtæki. Honum þykir ólíklegt að ríkið muni stíga inn í hluthafahóp WOW air. „Hættan af keðjuverkun er ekki með sama hætti og þegar til dæmis kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki fara í þrot. Það er enn fremur vafasamt fordæmi fyrir ríkið þegar efnahags- og fjármálastöðugleika er ekki beinlínis ógnað með snjóboltaáhrifum og keðjuverkun,“ segir hann.
Jón Bjarki segir að það yrði óheppilegt ef stjórnvöld myndu skerast í leikinn með því að veita ríkisábyrgð á lán eða með öðrum slíkum stuðningi. „Það yrði vafasamt fordæmi. Það kann almennt ekki góðri lukku að stýra ef ríkið leikur bjargvætt atvinnulífsins. Hlutverk þess væri mun frekar að liðka fyrir því að ferðaþjónustunni í heild sé gert sem léttast að bregðast við slíkum skelli og tryggja ábyrga hagstjórn, t.d. með innspýtingu í opinbera fjárfestingu ef kreppir að tímabundið.“
Treystir á að ríkið bjargi krónunni
Snorri óttast ekki að ríkið muni bjarga WOW air. Það væri óréttlætanlegt að bjarga einkaflugfélagi. „Ég er hræddur um að krónan gæti fallið skarpt ef WOW air verður gjaldþrota og treysti á að ríkið komi í veg fyrir að gengið veikist of mikið þannig að verðbólgan fari ekki á flug,“ segir hann.