Íslenska landsliðstreyjan í handbolta verður ekki í mörgum jólapökkum í ár ekkert frekar en fótboltalandsliðstreyjan fyrir ári síðan.
Knattspyrnusamband Íslands tilkynnti ekki um HM-treyju karlalandsliðsins fyrr en í mars á þessu ári og þó svo að Handknattleikssamband Íslands sé mun fyrr á ferðinni þá ná þeir ekki að koma treyjunni í jólapakka krakkanna.
Í frétt á heimasíðu sambandsins segir frá því að skrifstofa HSÍ hafi að undanförnu fengið til sín fjölmargar fyrirspurnir frá áhugasömum vegna kaupa á landsliðstreyjunni í handbolta.
„Því miður verður treyjan ekki komin í sölu fyrr en í byrjun janúar rétt áður en landsliðið heldur á HM. Treyjan verður m.a. seld í gegnum nýja netverslun sem HSÍ mun opna um leið og treyjan kemur til landsins. Verður opnun netversluninar og sala treyjunar vel auglýst þegar við höfum fengið treyjuna í okkar hendur,“ segir í fréttinni.
Íslenska handboltalandsliðið er á leiðinni á HM í Þýskalandi og Danmörku í janúar 2019 en íslensku strákarnir verða þar í riðli með Spáni, Króatíu, Makedóníu, Barein og Japan. Fyrsti leikur Íslands er á móti Króatíu í Ólympíuhöllinni í München 11. janúar.
