HSÍ samþykkti nýverið að í stórum sjónvarpsútsendingum megi dómarar í leikjum nýta sér tæknina og skoða umdeild atvik.
Strax í upphafi stórleiksins á Hlíðarenda í gær ákváðu dómarar leiksins að skoða brot sem flest allir í Origo höllinni misstu af. Alexander Örn Júlíusson fór í andlitið á Daníel Þór Ingasyni og fékk rautt spjald fyrir eftir að dómararnir nýttu sér upptökuna.
„Þessi innleiðing á VAR í deildina er æðisleg,“ sagði Logi í Seinni bylgjunni.
„Þetta er ein skemmtilegasta breyting í handbolta sem ég hef séð. En ég verð samt að segja eitt,“ sagði Logi og tók þáttinn yfir í nokkrar mínútur.
Hann minntist þá á atvik seinna í leiknum, þegar staðan var jöfn og Heimir Óli Heimisson skoraði mark sem dæmt var af vegna línu. Endursýningar sýndu að ekki var um línu að ræða.
„Þarna var ég brjálaður. Þetta er engan vegin lína, fullkomlega löglegt mark. Dómarar eru allt of gjarnir á að dæma línu á þetta,“ sagði Logi.
„Lausnin á þessu er, hvor þjálfari fær eitt spjald til þess að kíkja á vafasama dóma. Það yrði geðveikt.“
„Ef þú sérð ekki línu þá máttu ekki dæma á þetta.“
„Þetta er svo ógeðslega dýrt, þetta er rangur dómur. Þetta hefði getað verið þar sem leikurinn brotnaði í aðra hvora áttina.“