Erlent

Fær ekki krónu við starfslok vegna kynferðislegrar áreitni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Les Moonves.
Les Moonves. Andrew Toth/Getty
Les Moonves, fyrrverandi forstjóri bandaríska fjölmiðlarisans CBS sem lét af störfum eftir ásakanir um ósæmilega kynferðislega hegðun, mun ekki fá 120 milljónir Bandaríkjadala í starfslok, eins og samningur hans kvað á um. Þetta ákvað CBS að lokinni ítarlegri rannsókn sem sýndi fram á að fótur var fyrir ásökununum á hendur Moonves. Hollywood Reporter greinir frá þessu.

Þetta kom fram í yfirlýsingu frá fjölmiðlafyrirtækinu sem send var út í dag. Þar sagði að Moonves fengi ekki greitt samkvæmt starfslokasamningi. Byggði sú ákvörðun á að Moonves „hafi vísvitandi gerst sekur um misbeitingu valds í verki, hann hafi brotið gegn stefnu fyrirtækisins og atvinnusamningi sínum, auk þess sem hann hafi ekki sýnt samstarfsvilja í rannsókn fyrirtækisins á ásökunum á hendur honum.“

Ásakanirnar á hendur Moonves eru þó nokkrar. Alls sökuðu tólf konur Moonves um kynferðisbrot. Meðal ásakana er að hann hafi þvingað minnst eina til munnmaka og að hafa bæði kysst þær og snert án samþykkis. Þá á hann að hafa áreitt þær á vinnutíma og brugðist ókvæða við þegar þær tóku illa í hegðun hans. Einhver hinna meintu brota munu hafa átt sér stað þegar Moonves var einn af æðstu yfirmönnum Warner Bros.

Þá sögðu tugir núverandi og fyrrverandi starfsmanna CBS Moonves hafa stuðlað að vinnuumhverfi sem gerði lítið úr kynferðislegri áreitni. Þeir sögðu starfsmenn sem hafi orðið uppvísir af slíkri hefðun hafa fengið stöðuhækkanir og þolendum hafi verið greitt fyrir þagmælsku.


Tengdar fréttir

Colbert spænir í eigin yfirmann

Stephen Colbert, stjórnandi The Late Show, hikaði ekki við að senda yfirmanni sjónvarpsstöðvar sinnar, Les­ Moonves yfirmanni CBS, tóninn í þætti sínum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×