Sport

Enn eitt Íslandsmetið hjá Antoni Sveini

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Anton Sveinn
Anton Sveinn vísir/anton
Anton Sveinn McKee bætti Íslandsmet í fjórða skipti í vikunni í nótt þegar hann synti í undanrásum 50 metra bringusunds á HM í 25 metra laug í Kína.

Anton setti Íslandsmet í 50 metra sundi þegar hann synti í 100 metra bringusundi á dögunum, en millitími hans eftir fyrri 50 metrana í því sundi var undir Íslandsmetinu og var sá tími gildur til nýs Íslandsmet, 26,98 sekúndur.

Í nótt bætti hann svo þetta nýsetta met sitt þegar hann fór 50 metrana á 26,47 sekúndum. Sá tími dugði hins vegar ekki í undanúrslit, síðasti tíminn þar inn var 26,57 sekúndur. Anton endaði í 21. sæti.

Anton setti því Íslandsmet í öllum þremur vegalengdunum sem hann tók þátt í á mótinu, 50, 100 og 200 metra bringusundi.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir keppti í 50 metra skriðsundi í morgun. Hún endaði í 31. sæti á 25,67 sekúndum sem er tæpri sekúndu frá Íslandsmeti Ragnheiðar Ragnarsdóttur frá 2010.

Dadó Fenrir Jasmínuson keppti í 100 metra skriðsundi í nótt. Hann synti á 50,19 sekúndum sem skilaði honum í 55. sæti af 109 keppendum.

Hann á best 49,59 í greininni. Þetta var seinni grein Dadós á mótinu.

Allir Íslendingarnir hafa nú lokið keppni á mótinu en því lýkur á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×