Sport

Anton Sveinn stórbætti Íslandsmetið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Anton Sveinn Mckee.
Anton Sveinn Mckee. vísir/anton
Anton Sveinn McKee stórbætti Íslandsmetið í 200 metra bringusundi á HM í 25 metra laug í Kína í nótt.

Anton Sveinn tvíbætti Íslandsmet þegar hann keppti í 100 metra bringusundi fyrr í vikunni og fylgdi því eftir með því að bæta metið í 200 metrum, nýtt Íslandsmet er 2:04,37.

Tíminn skilaði Antoni í 10. sæti í greininni sem dugir ekki til úrslita.

Gamla metið átti Anton sjálfur en það var 2:07,04 frá því á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug nú í nóvember. Heimsmetið í greininni er 2:00,44.

Í nótt kepptu einnig Kristinn Þórarinsson og og Dadó Fenrir Jasmínuson.

Kristinn var við sitt besta í 100 metra fjórsundi og synti á 54,57 sekúndum. Það skilaði honum í 24. sæti af 38 keppendum. Íslandsmetið í greininni er 54,30.

Hann keppti einnig í 50 metra baksundi stuttu á eftir fjórsundinu. Hann náði sér ekki á strik og endaði í 36. sæti af 50 sundmönnum á tímanum 25,39 sekúndum.

Dadó keppti í sinni fyrstu grein á heimsmeistaramóti þegar hann synti 50 metra skriðsund. Hann synti á 22,51 sem er aðeins frá hans besta tíma. Hann endaði í 54. sæti af 128 keppendum.

Dadó jafnaði Íslandsmetið í greininni í nóvember þegar hann synti á 22,29 sekúndum.

Kristinn hefur nú lokið leik á HM en Anton Sveinn og Dadó keppa á laugardaginn, Dadó í 50 metra skriðsundi og Anton í 50 metra bringusundi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×