Gabon er ríkt af olíuauðlindum og þar hefur fjölskylda núverandi forseta ríkt í rúma hálfa öld eða allt frá sjálfstæði landsins árið 1960.
Forsetinn, Ali Bongo, tók við völdum af föður sínum, Omari Bongo, árið 2009, en sá hafði ríkt í landinu nær alla tíð frá sjálfstæði landsins.
Ali Bongo er sagður hafa fengið slag í október síðastliðnum og gengist undir meðferðir í Marókkó.
Orðrómur var þó uppi um að í raun væri forsetinn ekki við stjórnvölinn og í því ljósi segist herinn hafa ákveðið að taka völdin, til að endurreisa lýðræðið í landinu, eins og það er orðað.
Íbúar Gabon telja um tvær milljónir.
