Viðskipti erlent

Apple sendir frá sér fyrstu afkomuviðvörun sína á snjallsímaöld

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tim Cook, forstjóri Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple. Vísir/Getty Images
Tæknirisinn Apple sendi í dag frá sér afkomuviðvörun eftir að í ljós kom að afkoma á fjórða ársfjórðungi 2018 yrði öllu lakari en spár höfðu gert ráð fyrir. Í bréfi sem Tim Cook forstjóri fyrirtækisins sendi hluthöfum í dag segir að stöðuna megi rekja til samdráttar á kínverskum mörkuðum, að því er fram kemur á vef The Guardian.

Viðskipti með hlutabréf í Apple voru stöðvuð tímabundið í dag á meðan Cook fór yfir stöðuna með helstu hluthöfum. Bréf í fyrirtækinu féllu um 7,45 prósent þegar banninu var aflétt skömmu síðar.

Í bréfi Cook til hluthafa segir m.a. að stjórnendur Apple hafi ekki getað séð fyrir hversu mikil áhrif samdráttur í kínversku efnahagslífi hefði á gengi fyrirtækisins. Þá sagðist hann þess einnig fullviss að viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína eigi hlut að máli og hafi áhrif þess endurspeglast í lakari kaupmætti kínverskra neytenda.

Spár höfðu áður gert ráð fyrir að tekjur Apple næmu á bilinu 89-93 milljörðum Bandaríkjadala á fjórða ársfjórðungi 2018. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að tekjur á fjórðungnum verði 84 milljarðar dala. Afkomuviðvörunin er sú fyrsta sem Apple sendir frá sér síðan árið 2002 og sú fyrsta sem fyrirtækið gefur út á snjallsímaöld, þ.e. frá því að fyrsti iPhone-inn var kynntur til sögunnar árið 2007.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×