Danir fara með fullt hús stiga inn í milliriðil á HM í handbolta eftir sigur á Noregi í toppslag C-riðils.
Heimamenn í danska landsliðinu byrjuðu leikinn betur og komust í 4-1. Norðmenn vöknuðu þá aðeins til lífsins en náðu þó ekki að jafna leikinn.
Í stöðunni 12-11 þegar það voru sjö mínútur eftir af fyrri hálfleik skoruðu Danir fjögur mörk í röð og komu sér í fimm marka forystu. Goran Johannessen lagaði stöðuna aðeins fyrir Norðmenn en staðan var 17-14 í hálfleik.
Mikkel Hansen átti hreint ótrúlegar tíu mínútur snemma í seinni hálfleik þegar hann skoraði sex mörk, þar af þrjú í röð án þess að Norðmenn kæmu orði inn á milli, og kom Dönum í níu marka forystu 25-16.
Norðmenn svöruðu þeim kafla þó vel og fóru á 7-1 kafla, staðan orðin 26-23 þegar sex mínútur voru eftir af leiknum. Þeir náðu þó ekki að koma sér nógu nálægt til þess að ógna sigri Dana að ráði, lokatölur 30-26 og Danir vinna riðilinn án þess að tapa leik.
Króatar unnu toppslaginn við Spánverja í riðli okkar Íslendinga og fara því einnig taplausir inn í milliriðil.
Spánverjar komust yfir í upphafi og voru yfir fyrstu mínúturnar en Króatar jöfnuðu eftir um tíu mínútur og komust svo yfir.
Þeir skoruðu fimm mörk í röð undir lok hálfleiksins og komu sér í 7-12 þegar örfáar mínútur lifðu af fyrri hálfleik. Spánverjar náðu aðeins að laga stöðuna, munurinn bara þrjú mörk, 10-13, þegar flautað var til hálfleiks.
Liðin skiptust á að skora í seinni hálflik og það var ekki fyrr en á 45. mínútu að Króatar náðu að setja tvö mörk í röð. Spánverjar svöruðu því hins vegar með tveimur mörkum í röð og munurinn áfram tvö mörk, 18-20. Króatar kláruðu leikinn hins vegar á 3-1 kafla, lokatölur 19-23.
Svíar unnu Ungverja í D-riðli og í A-riðli rétt mörðu Frakkar 23-22 sigur á Rússum.
Riðlakeppninni er því lokið og ljóst hvaða lið fara í milliriðla.
Í milliriðil 1 fara úr A-riðli Frakkland, Þýskaland og Brasilía og úr B-riðli Króatía, Spánn og Ísland. Í milliriðil 2 fara úr C-riðli Danmörk, Noregur og Túnis og úr D-riðli Svíþjóð, Ungverjaland og Egyptaland.

