Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í handbolta mæta Makedóníu í hreinum úrslitaleik um sæti í milliriðlum HM 2019 í handbolta í dag klukkan 17.00.
Bæði lið eru með fjögur stig eftir fjóra leiki; hafa unnið bæði Japan og Barein en tapað fyrir stórliðum Spánar og Króatíu. Ísland er með betri markamun og nægir jafntefli til að fara áfram í dag.
Makedóníumenn eru sterkir og hafa mikið beitt þeirri leikaðferð að taka markvörðinn úr markinu og spila sjö á móti sex í sóknarleiknum. Með því geta þeir neglt íslensku vörnina niður á sex metrana í dag og leyft skyttunum sínum að fara meira í loftið.
Gallinn við sjö á móti sex er aftur á móti að hver sóknarfeill er mun dýrari því markið er autt hinum megin og er hægt að fá á sig aragrúa af mörkum í bakið séu menn ekki að nýta sóknirnar.
Það má búast við því að okkar menn muni fá tækifæri til að skora í autt markið og þá er eins gott að vanda sig því Guðmundur Guðmundsson hefur ekki gaman að misheppnuðum langskotum eða tæpum sendingum fram völlinn.
Það sást best á móti Barein þegar að hann starði svo illilega á Björgvin Pál Gústavsson, markvörð íslenska liðsins, að Björgvin þorði ekki að líta á Guðmund. Björgvin hafði þá kastað boltanum yfir allan völlinn og yfir mark Barein. Ísland var samt fimmtán mörkum yfir.
„Mér fannst bara ekki þörf á þessu. Það er oft betra að taka eina millisendingu og skjóta svo í markið,“ sagði Guðmundur á blaðamannafundi í vikunni aðspurður um þetta atvik og almennt þá list að skora í autt mark andstæðingsins.
„Ég ætla nú ekki að fara eitthvað nánar út í það sem að fram fór en ég hafði ekki húmor fyrir öllu sem gerðist þarna,“ sagði Guðmundur Guðmundsson.
