Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði fimm mörk í sigri Íslands á Japan á HM í handbolta í dag og var markahæstur í íslenska liðinu. Hann var ánægður með sigurinn en sagði eftir leik að Íslendingar hefðu getað spilað betur í dag.
„Það er alltaf gott að fá sigur, sama á móti hverjum. Við vorum ótrúlega lengi í dag og sofandi í upphituninni líka. Það er bara okkur sjálfum að kenna hvernig við mættum til leiks hér í dag,“ sagði Stefán Rafn í samtali við Tómas Þór Þórðarson í München. „Það kviknaði rétt svo á okkur síðustu 20 mínúturnar. Við hefðum átt að gera betur.“
„Það er mikið betra að byrja leikina af miklum krafti og gera hlutina rólegri fyrir mann. En þeir eru drulluerfiðir og ótrúlega snöggir. Við vorum aðeins sofandi á löppunum á köflum,“ sagði hann.
Hiroki Shida, leikmaður Japans fékk að líta rauða spjaldið í leiknum fyrir að brjóta á Stefáni Rafni í hraðaupphlaupi. Stefán Rafn var að stökkva inn í teig þegar Shida braut á honum.
„Ég hélt að hann myndi stoppa sig því ég sá hann koma á blindu hliðinni á mér. En svo sló hann mig bara í andlitið og hrinti mér. Ég rúllaði mér kannski eitthvað en það verður þá bara að vera þannig.“
Stefán Rafn: Sofandi líka í upphitun
Tengdar fréttir

Twitter yfir leiknum: Sexy að sjá Íslending tala japönsku
Dagur Sigurðsson og fallega japanskan hans var mikið á milli tannanna á fólki meðan á leik Íslands og Japan stóð. Ísland vann fjögurra marka sigur, 25-21, í leiknum.

Leik lokið: Ísland - Japan 25-21 | Erfiður seiglusigur á strákunum hans Dags
Ísland vann sinn annan leik á HM í handbolta í dag þegar liðið fór með 25-21 sigur á Japan. Frammistaða liðsins var ekki góð en mikilvæg stig í höfn.