Þýskaland og Frakkland hafa þegar tryggt sig inn í undanúrslitin úr okkar riðli en í hinum riðlinum berjast þrjár Norðurlandaþjóðir um tvö laus sæti. Ísland getur átt góðan fulltrúa í undanúrslitunum á HM takist Svíum að tryggja sig inn í undanúrslitin í dag.
Verkefnið er þó eins krefjandi og þau gerast því sænska liðsins bíður leikur á móti heimamönnum í danska landsliðinu.
Danmörk er líka í bestu stöðunni fyrir lokaleikina enda með átta stig eða tveimur stigum meira en Svíþjóð og Noregur.
Norðmenn spila við Ungverjaland í dag og sá leikur fer fram á undan leik Danmerkur og Svíþjóðar.
Vinni Norðmenn Ungverja verða þeir líka í mjög góðri stöðu. En þeir þurfa samt að treysta á ákveðin úrslit verði ekki í leik Dana og Svía.

Verði öll liðin jöfn að stigum með átta stig þá munu úrslit úr innbyrðisleikjum ráða röð liðanna.
Danir unnu fjögurra marka sigur á Norðmönnum og búa því vel í þeim útreikningum. Norðmenn unnu Svía með þremur mörkum og eru því í -1 í innbyrðisleikjum liðanna þriggja. Svíar eru -3 og þurfa því þriggja marka sigur á Dönum til að komast upp fyrir Norðmenn.
Tveggja marka sigur Svía gæti dugað vinni Norðmenn ekki upp forskot Svía í heildarmarkamun en Svíar eiga tvö mörk á Norðmenn fyrir lokaumferðina. Svíar eru +15 en Norðmenn +13.
Danir gætu setið eftir en þá aðeins ef þeir tapa með meira en fimm mörkum á móti Svíum og Norðmenn verða jafnir þeim og Svíum að stigum.
Öll liðin væru þá með átta stig en í innbyrðisleikjum væri Svíar +3, Norðmenn -1 og Danir -2. Það er hinsvegar afar ólíklegt að Svíar náði að vinna sex marka sigur á Dönum í Jyske Bank Boxen í Herning. Allt getur samt gerst.
Danir og Norðmenn eru vissulega í betri stöðu en Svíar. Leikur Noregs og Ungverjalands hefst klukkan 17.00 en leikur Danmerkur og Svíþjóðar hefst klukkan 19.30.
Þegar Danmörk og Svíþjóð hefja leik þá vita þau bæði nákvæmlega stöðuna og leikurinn gæti því orðið mjög taktískur.

- Ef þeir vinna Svía
- Ef þeir gera jafntefli við Svía
- Ef Norðmenn vinna ekki Ungverja
Svíar fara áfram í undanúrslitin á HM 2019:
- Ef þeir vinna Dani og Norðmenn vinna ekki Ungverja
- Ef þeir gera jafntefli við Dani og Norðmenn tapa fyrir Ungverjum
- Ef þeir vinna Dani með 3 mörkum eða meira og Norðmenn vinna Ungverja
Norðmenn fara áfram í undanúrslitin á HM 2019:
- Ef Svíar tapa fyrir Dönum
- Ef þeir vinna Ungverja og Svíar vinna ekki Dani
- Ef þeir vinna Ungverja og Svíar vinna Dani með 1 marki
- Ef þeir gera jafntefli við Ungverja og Svíar vinna ekki Dani

Danmörk +4 mörk
30-26 sigur á Noregi
Mæta Svíum í kvöld.
Noregur -1 mark
26-30 tap fyrir Danmörku
30-27 sigur á Svíþjóð
Svíþjóð -3 mörk
27-30 tap fyrir Noregi
Mæta Dönum í kvöld