Katar var rétt í þessu að tryggja sér þrettánda sætið á HM í handbolta eftir sigur á Rússlandi 34-28.
Bæði lið unnu sína leiki í gær og spiluðu því upp á þrettánda sætið í dag. Rússar rétt mörðu Makedóníu á meðan Katar vann Síle.
Í leiknum í dag voru liðsmenn Katar með yfirhöndina nánast allan leikinn þó svo að Rússarnir hafi aldrei verið langt undan. Staðan í hálfleik var 12-11 fyrir Katar.
Í seinni hálfleiknum jókst forysta Katar smátt og smátt og vann Katar að lokum sigur 34-28. Markahæstur í liði Katar var Carol Marzo með sjö mörk á meðan Kovalev var markahæstur hjá Rússum, einnig með sjö mörk.
