Á smíðatíma nýs Herjólfs hefur nokkrum sinnum verið tilkynnt um seinkun á afhendingu skipsins. Í vetur var tilkynnt að 30. mars næstkomandi hæfi nýr Herjólfur siglingar um Landeyjahöfn. Hvort sem af því verður eður ei tekur Vestmannaeyjabær við rekstri Herjólfs þennan dag.
Stofnað hefur verið opinbert hlutafélag um reksturinn og ráðið í stöður framkvæmdastjóra, skipstjóra og vélstjóra. Nú er auglýst eftir starfsfólki í eldhús og þjónustustörf um borð, umsóknarfrestur rennur út 25. janúar næstkomandi.
Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., segir að nýja ferjan eigi að sigla sjö ferðir á dag milli Vestmannaeyja og Landeyja frá klukkan sjö á morgnana fram yfir miðnætti.
Áætlanir okkar gera ráð fyrir þremur áhöfnum á tvískiptum vöktum.
Lokaprófanir um næstu mánaðamót
Guðbjartur er staddur í Póllandi. Hann fór þangað í gær ásamt skipstjóra og vélstjóra. Fyrir voru annar skipstjóri og vélstjóri í Póllandi. Guðbjartur býst við að báðir skipstjórar og vélstjórar verði í Póllandi þar til skipið verður afhent.„Við höfum ekki fengið endanlega staðfestingu á því hvenær það verður afhent. Það eiga eftir að fara fram sjópróf í Póllandi sem verða einhvern tíma um mánaðamótin. Þegar þeim er lokið væntir maður þess að fá nákvæmari svör á því hvenær afhendingin gæti farið fram.“
Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., býst við því að nýr Herjólfur verði afhentur nokkrum vikum eftir lokaprófanirnar í Póllandi.