Allra stærstu fituhlunkarnir sem fundist hafa eru tugir metra á lengd og hafa fundist meðal annars í holræsakerfum í London, New York, Denver, Valencia og Melbourne. Fituhlunkur sem fannst í Shepherd’s Bush í London árið 2014 var á stærð við Boeing 747 flugvél en sá stærsti sem fundist hefur hingað til var árið 2017 í Whitechapel, austur af London. Sá var 250 metrar á lengd, næstum jafn langur og sjálft Titanic. Fyrirbærið hefur einnig verið kallað „skrímsli“.
Í fráveitukerfi Veitna hafa myndast stíflur vegna fituhlunka sem hafa valdið tjóni. Þeir fituhlunkar hafa ekki verið af þeirri stærðargráðu sem við fáum fréttir af frá útlöndum, en engu að síður nógu stórir til að valda vandræðum.
„Því miður höfum við verið að sjá mikla aukningu í notkun blautklúta á síðustu árum og einnig er algengt að fitu sé hellt í fráveitukerfið. En það er ekki bara hjá okkur sem lagnir stíflast af þessum sökum því lagnir heimila gera það líka en enginn vill lenda í því að stífla hjá sér klósettið. A.m.k. tvær sögur hafa borist Veitum um heimlagnir í leikskólum sem hafa stíflast og komið hefur í ljós að þær hafa verið stútfullar af blautklútum,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna.
„Það er alveg hugsanlegt að við getum lent í svipuðu og önnur lönd hafa þurft að kljást við.“
Ljóst er að blautklútar valda vandræðum og miklum kostnaði í fráveitukerfinu og kostnaður Veitna vegna aðgerða sem ráðast þarf í vegna blautklúta hefur verið metinn á yfir tug milljóna króna á ári. Þá er ótalinn kostnaður annarra fráveitna, en Veitur reka fráveitukerfi fyrir tæplega 40% landsmanna og hreinsa skólp frá 60% þeirra.

„Mörg sveitarfélög á landinu eru ekki með skólphreinsistöðvar og þá enda blautklútarnir sem hent er í klósettið út í sjó. Hið sama á við þegar stöðva þarf starfsemi í einhverri af dælu- eða hreinsistöðvum Veitna vegna bilana eða viðhalds. Blautklútarnir eru oft úr fínum plasttrefjum og leysast ekki upp og má því búast við að þeir séu í sjónum í mörg ár eða fljóti upp í fjörur.“
Að sögn Ólafar eru stíflur í lagnakerfum vegna fitu sem betur fer ekki algengar, en þó þurfi að losa slíkar nokkrum sinnum á ári. Stíflur vegna blautklúta og annarra óæskilegra efna í dælustöðvum eru algengari.
„Við höfum verið í átaki við að upplýsa þjóðina en margir hafa haldið að í lagi sé að henda blautklútum í klósett. Það er ekkert undarlegt þar sem fjöldi framleiðenda merkir þær sem „flushable“ sem þýðir að þeim má sturta niður. Sem er ekki tilfellið,“ segir Ólöf.
„Veitur hafa verið að benda sérstaklega á blautklúta og fitu/olíu, sem stærsta stífluvaldinn. Það er allt of mikið magn af bæði fitu og blautþurrkum í kerfinu. Það er samt sem áður vert að benda á að ekkert rusl á heima í fráveitukerfinu, bara líkamlegur úrgangur og klósettpappír. Við segjum stundum að ekkert eigi að fara í klósettið nema það hafi verið borðað áður. Dæmi um hluti sem stundum enda í klósettinu en eiga ekki heima þar eru dömubindi, tíðatappar, bómull, smokkar, eyrnapinnar, tannþráður og hár.“