Handbolti

ÍBV án Thedórs út leiktíðina?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Theodór í úrslitaeinvíginu gegn ÍBV á síðustu leiktíð.
Theodór í úrslitaeinvíginu gegn ÍBV á síðustu leiktíð. vísir/bára
Theodór Sigurbjörnsson, einn besti leikmaður Olís-deildarinnar og hægri hornamaður ÍBV, gæti verið frá út leiktíðina en Morgunblaðið greinir frá þessu í kvöld.

Theodór hefur verið einn albesti leikmaður Olís-deildarinnar undanfarin ár en hann hefur verið á meiðslalistanum undanfarnar vikur og var ekki með ÍBV gegn ÍR í gærkvöldi er liðin gerðu jafntefli, 24-24.

„Ég er með eitt­hvert vesen í brjóski í bak­inu og þetta hef­ur verið að angra mig síðan í nóv­em­ber. Síðasti kost­ur­inn er að fara í aðgerð en ég mun byrja á því að fara í end­ur­hæf­ingu sem mun taka dágóðan tíma,“ sagði Theodór.

„Eft­ir þær frétt­ir sem ég fékk hjá lækn­in­um í gær þá má reikna því að ég spili ekk­ert meira með í vetur.“

ÍBV hefur verið í vandræðum í vetur og eru Íslandsmeistararnir í sjöunda sæti deildarinnar með þrettán stig. Eins og staðan er núna er ÍBV í harðri baráttu um úrslitakeppnissæti en Theodór reiknar ekki með að spila meira.

„Ef ég fer of snemma af stað þá myndi ég bara fá það í haus­inn síðar meir. Ég verð bara að taka þann tíma sem það tek­ur að fá sig góðan af þessu og lækn­ir­inn sagði að það tæki að minnsta kosti þrjá mánuði,“ sagði Theo­dór í sam­tali við mbl.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×