Það var líklega bara tímaspursmál hvenær bílaleigur heimsins byðu Lamborghini Urus jeppann til láns fyrir aðdáendur ofurjeppa og þrjár bílaleigur vestur í Bandaríkjunum hafa riðið á vaðið.
Þar geta bílaáhugamenn kynnst þessum 641 hestafls jeppa sem fer sprettinn í hundraðið á litlum 3,6 sekúndum en það kostar sitt. Dagurinn kostar 1.308 dollara, eða 155.000 krónur. Það er ekki lítið fé þegar haft er í huga að hæglega er hægt að leigja sér bíl fyrir tíu þúsund kall á dag.
En allt fyrir upplifunina og vonandi munu þeir sem leigja sér bílinn njóta þess, en þessi bíll er jú eini bíll Lamborghini sem ekki er hræddur við að verða skítugur.
