Umfjöllun og viðtöl: KA - Fram 24-18 │KA-menn stigu stórt skref frá fallbaráttunni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
KA-menn ekki í vandræðum með Fram
KA-menn ekki í vandræðum með Fram vísir/ernir
KA tók á móti Fram í 14.umferð Olís-deildar karla í KA-heimilinu í kvöld í sannkölluðum fallbaráttuslag en KA-menn freistuðu þess að slíta sig vel frá neðri hlutanum á meðan Framarar þurfa nauðsynlega á stigum að halda enda í fallsæti.

KA-menn gáfu tóninn í upphafi leiks og virtust miklu betur stemmdir en gestirnir. Enda fór það svo að KA-menn tóku frumkvæðið snemma leiks og héldu því svo út leikinn.

Staðan í leikhléi var 14-11 fyrir KA en þeir voru yfir allan fyrri hálfleikinn þó Framarar hafi náð að minnka muninn í eitt mark um miðbik fyrri hálfleiks.

Síðari hálfleikur var afskaplega áhugaverður. Sóknarleikur beggja liða í algjöru rugli enda var staðan eftir 50 mínútur 17-14. Semsagt sex mörk skoruð á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks. Framarar náðu að minnka muninn í tvö mörk þegar tíu mínútur lifðu leiks en þá sögðu heimamenn hingað og ekki lengra og áttu algjörlega síðustu mínútur leiksins. Fór að lokum svo að KA vann öruggan sex marka sigur, 24-18.

Afhverju vann KA?

KA-menn voru einfaldlega betri á öllum sviðum handboltans stærstan hluta leiksins. Framarar áttu engin svör við framliggjandi vörn KA-manna og það skipti því engu máli þegar allt féll í baklás í sóknarleik KA í síðari hálfleik. Framarar skoruðu ekki heldur og náðu því ekkert að saxa á forskot heimamanna. Verðskuldaður sigur KA í þessum mikilvæga leik.

Bestu menn vallarins

Framliggjandi vörn KA-manna vann þennan leik og henni stýrði Heimir Örn Árnason. Tarik Kasumovic var allt í öllu í sóknarleiknum en Daníel Matthíasson á einnig skilið að vera nefndur hér. Hann spilaði stórt hlutverk í varnarleiknum og skilaði svo 5 mörkum af línunni.

 

Í liði Fram er eingöngu hægt að nefna Viktor Gísla Hallgrímsson í markinu. Hann var í raun ástæðan fyrir því að Framarar voru inni í leiknum jafn lengi og raun bar vitni. 

Hvað gekk illa?

Uppstilltur sóknarleikur beggja liða á köflum en hjá gestunum allan leikinn. Það var svakalegt að horfa á fyrstu 20 mínútur síðari hálfleiks þar sem ekkert var að frétta. Eins verður að setja frammistöðu Framara einum manni fleiri hérna inn. Það hjálpaði þeim ekkert að finna glufur á KA-vörninni að vera manni fleiri. 

Hvað er næst?

Gífurlega mikilvægir leikir framundan hjá KA-mönnum en það hefst á útileik gegn Gróttu um næstu helgi. Á sama tíma fá Framarar Hauka í heimsókn.

 

Stefán: 3-2-1 vörnin virkaði hrikalega vel
Stefán Rúnar Árnasonvísir/bára
Stefán Árnason, þjálfari KA, var að vonum í skýjunum með þennan mikilvæga sigur.

„Gífurlega ánægður. Við erum búnir að horfa til þessa leiks lengi og vildum svara fyrir tap í slæmum leik gegn Fram í fyrri viðureigninni. Janúar mánuður er búinn að miða að því að vera í hörkuformi þegar kom að þessum leik og 3-2-1 vörnin virkaði alveg hrikalega vel. Fáum bara á okkur 18 mörk og við getum verið gríðarlega ánægðir með það,“ segir Stefán.

KA leiddi leikinn frá upphafi til enda en náðu þó ekki að slíta Framara almennilega frá sér fyrr en alveg undir restina.

„Ég er aldrei rólegur á hliðarlínunni. Maður getur ekki andað léttar fyrr en leikurinn er búinn. Við vorum alltaf með ákveðin tök á leiknum með þessum varnarleik sem við vorum að spila. Svo kemur Jovan hrikalega sterkur þegar við vorum að ströggla í sókninni og þeir komust aldrei svakalega nálægt okkur,“ segir Stefán.

KA-menn eru nú komnir fimm stigum frá fallsvæðinu en Stefán segir aðalmarkmiðið enn vera að tryggja veru í efstu deild.

„Við ætlum bara að halda áfram að reyna að gera það sem við höfum verið að gera og það kemur bara í ljós í lok tímabils hvar við endum. Við vitum að við þurfum töluvert fleiri stig til að halda okkur í deildinni en þetta voru tvö mikilvæg stig,“ segir Stefán.

Sverre Jakobsson var mættur á hliðarlínuna hjá KA en hann var nýverið ráðinn til starfa sem aðstoðarþjálfari KA eftir að hafa verið rekinn frá Akureyri Handboltafélagi í lok síðasta árs.

„Það er frábært að fá Sverre. Hann losnaði og það var einróma vilji allra hjá KA að fá hann með einhverjum hætti inn í starfið hjá okkur. Hann vildi vera áfram tengdur handbolta og það er frábært að fá Sverre aftur heim,“ sagði Stefán að lokum.

Guðmundur Helgi: Köstum þessu frá okkur í restina
vísir/bára
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var hundfúll í leikslok.

„Það er rándýrt fyrir okkur að tapa þessum leik. Mér fannst við ekki hafa trú á verkefninu, það var fyrst og fremst það sem klikkaði. Við spiluðum ágætis vörn á köflum en svo vorum að gera aulamistök sem gáfu þeim færi á að skora beint í bakið á okkur. Við fáum fullt af dauðafærum sem við nýtum ekki og erum með allt of mikið af töpuðum boltum,“ segir Guðmundur Helgi.

Framarar áttu engin svör við framliggjandi vörn KA-manna. Voru Guðmundur og hans menn ekki búnir að undirbúa sig undir það að KA-menn myndu verjast þeim svo framarlega?

„Jú við vorum búnir að undirbúa það. Það er eitt að tala um hlutina og annað að gera þá. Menn verða að þora þegar komið er inn á völlinn. Við vorum staðir og vorum að hreyfa okkur of lítið en vorum samt alltaf inni í leiknum. Við köstum þessu frá okkur í restina,“ segir Guðmundur.

Framarar eru í fallsæti sem stendur en eru enn að horfa á að komast í úrslitakeppnina.

„Nú eru átta leikir eftir og það er úrslitaleikur í hvert skipti. Við verðum bara að fara að ná í stig. Við ætlum okkur að fara í 8-liða úrslit. Það er ekkert leyndarmál en þá þurfum við líka að taka fleiri stig og til þess þurfa fleiri menn að skila betri árangri heldur en í dag,“ segir Guðmundur að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira