Umfjöllun og viðtöl: Akureyri 26-27 Haukar │Haukar unnu með minnsta mun fyrir norðan

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Daníel Þór Ingason fór mikinn í Íþróttahöllinni á Akureyri í dag.
Daníel Þór Ingason fór mikinn í Íþróttahöllinni á Akureyri í dag. vísir/daníel
Akureyri Handboltafélag fékk Hauka í heimsókn í fyrsta leik ársins 2019 í Olís-deild karla en liðin eru að berjast á sitthvorum enda töflunnar, Haukarnir í toppbaráttu á meðan nýliðar Akureyrar eru að berjast fyrir lífi sínu í deild þeirra bestu.

Þetta var fyrsti leikur Akureyrar undir stjórn nýs þjálfara því Geir Sveinsson tók við stjórnartaumunum á Akureyri í upphafi árs.

Heimamenn voru heillum horfnir fyrstu mínútur leiksins og Haukar skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því. Í stöðunni 2-5 tók Geir leikhlé og við það virtist hans lið vakna. Akureyri jafnaði fljótt metin í 5-5 og liðin skiptust svo á að hafa forystuna næstu mínúturnar eða þar til Haukar stigu á bensíngjöfina undir lok fyrri hálfleiks og fóru gestirnir með þriggja marka forystu í leikhlé, 13-16.

Síðari hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri. Akureyringar mjög lengi í gang og Haukar náðu fimm marka forystu snemma í síðari hálfleik, 15-20. Þá tók Geir leikhlé og í kjölfarið fór Akureyri að saxa á forskot gestanna. Staðan jöfn, 23-23, þegar þrettán mínútur lifðu leiks.

Lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem liðin skiptust á að ná forystunni. Þegar fjórar mínútur lifðu leiks var staðan jöfn, 26-26. Akureyringar fengu kjörin tækifæri til að ná forystunni en fundu ekki leið framhjá Andra Scheving í marki Hauka og það var við hæfi að Daníel Þór Ingason skyldi skora markið sem skildi liðin að en það kom um 50 sekúndum fyrir leikslok.

Akureyri fékk því lokasóknina sem þeir léku manni fleiri og bjuggu til fínt færi fyrir Gunnar Valdimar Johnsen en skot hans fór yfir markið og eins marks sigur Hauka staðreynd.

Afhverju unnu Haukar?

Sigurinn hefði getað dottið hvorum megin sem var en Haukarnir einfaldlega klókari á lokaandartökunum. Akureyringar fóru illa með dauðafæri á síðustu tveimur mínútum leiksins og áttu ekki svör við Daníel Þór.

Bestu menn vallarins?

Daníel Þór Ingason var besti maður vallarins, án nokkurs vafa. Hann var allt í öllu á báðum endum vallarins hjá Haukum. Mikilvægi hans sást best þegar hann þurfti að hvíla sig um stund en þá hrundi sóknarleikur Hauka samstundis og Akureyringar komust inn í leikinn. Andri Sigmarsson Scheving átti flotta innkomu í markið og átti risastóra vörslu frá Patreki Stefánssyni á mikilvægu augnabliki.

Í liði heimamanna var hægri hornamaðurinn Garðar Már Jónsson bestur. Virkilega öruggur í öllum sínum aðgerðum. Nýtti öll sín skot úr horninu og braut leikinn líka upp með því að prjóna sig í gegnum hávaxna vörn Hauka. Patrekur Stefánsson átti einnig góða spretti.

Hvað gekk illa?

Skyttur Akureyrar náðu sér ekki á strik með skotum utan af velli sem gerði Haukunum kleift að liggja alveg niður á línu með sína hávöxnu varnarmenn. Markvarslan var á löngum stundum döpur hjá báðum liðum.

Hvað er næst?

Akureyri heimsækir Aftureldingu að Varmá um næstu helgi á sama tíma og Haukar heimsækja Fram í Safamýrina.

Geir: Ánægður með vinnuframlagið en blóðugt að nýta ekki lokasóknina
Geir Sveinsson er mættur í Olís-deild karla.vísir/skjáskot
Geir Sveinsson var eðlilega svekktur í leikslok en var engu að síður ánægður með margt í frumraun sinni með Akureyrarliðið.

„Mér líður líklega eins og öllum hérna inni nema stuðningsmenn og leikmenn Hauka; það eru mikil vonbrigði að uppskera ekkert úr leiknum. Þetta er bara sportið en við getum tekið margt jákvætt út úr leiknum og annað sem við þurfum að laga og gera betur,“ segir Geir.

Hann hrósar vinnuframlagi sinna manna en viðurkennir að erfitt sé að sætta sigvið lokamínúturnar í leiknum.

„Þeir voru komnir fimm mörkum yfir og við urðum að bregðast við því sem og við gerðum. Við komum með nýjar áherslur varnarlega og það tók sinn tíma að ná tökum á því en eftir að við gerðum það komum við mjög sterkir inn í leikinn. Það er blóðugt að ná ekki að nýta síðustu sóknina einum manni fleiri en ég er mjög ánægður með vinnuframlag drengjanna lungann úr leiknum, fyrir utan fyrstu 10 mínúturnar,“ segir Geir.

Á lokakafla leiksins féllu nokkrir umdeildir dómar með gestunum og í kjölfarið var varamannabekk Akureyrar refsað með tveggja mínútna refsingu. Hvað fannst Geir um það?

„Ég veit ekki hvað ég má tjá mig um og hvað ekki. Fljótt á litið set ég risastórt spurningamerki við það látbragð sem annar dómarinn sýnir til að útskýra það að við fáum tvær mínútur á bekkinn. Þetta er bara partur af leiknum og við lærum af því,“ segir Geir.





Gunnar: Góð gæði hjá báðum liðumGunnari Magnússyni, þjálfari Hauka, var létt í leikslok eftir að hafa séð sína menn koma til baka á lokaandartökunum, skömmu eftir að hafa misst frá sér fimm marka forskot.

„Við vissum að þetta yrði hrikalega erfitt. Það er mjög verðugt verkefni að koma hingað norður og mæta þeim í fyrsta leik með nýjan þjálfara. Svolítið nýtt upphaf hjá þeim og ég er hrikalega ánægður með strákana. Mér fannst við spila vel lengstum þó við höfum misst aðeins hausinn um tíma. Hrikalega ánægður með karakterinn að ná að snúa þessu við í lokin,“ segir Gunnar.

Hann var ekki sammála blaðamanni að það hafi verið deyfð yfir leikmönnum beggja liða á löngum stundum í leiknum.

„Mér fannst bæði lið vera að spila mjög vel. Mér fannst góð gæði þó það hafi verið eitthvað um tæknifeila,“ segir Gunnar

Athygli vakti að Aron Kristjánsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands og fyrrum þjálfari Hauka, var hluti af þjálfarateymi Hauka í dag en Maksim Akbachev sem hefur verið aðstoðarmaður Gunnars í vetur var hvergi sjáanlegur.

„Maksim er búinn að vera í mjög erfiðu flugnámi síðan síðasta sumar og er líka að þjálfa á fullu hjá U-liðinu. Hann hefur takmarkaðan tíma og Aron er mikill vinur minn og mikill Haukamaður. Því kemur hann og aðstoðar okkur aðeins. Það er frábært að hafa svona mann á bekknum og það styrkir teymið,“ sagði Gunnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira