Handbolti

Seinni bylgjan: Selfoss vinnur ekki titil með svona markvörslu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Að venju var ýmislegt rætt í Lokaskotinu í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í gærkvöldi, til að mynda hvort að Elvar Ásgeirsson sé framtíðarlandsliðsmaður og hvaða lið af þeim sem eru með tólf stig í Olísdeild karla eigi möguleika á að komast í úrslitakeppnina.

Markvarslan í Olísdeildinni var einnig til umræðu í þætti gærkvöldsins, ekki síst eftir að markverðir Selfoss vörðu aðeins tvö skot í leiknum gegn ÍBV í gærkvöldi. Selfyssingar sluppu samt fyrir horn og unnu leikinn eftir endurkomu á lokamínútunum.

„Þetta á ekki að vera hægt á 60 mínútunum,“ sagði Sebastían Alexandersson í þætti gærkvöldsins.

„En vissulega er ýmislegt hægt. En ég get ekki ímyndað mér að það sé hægt að leggja það á lið Selfoss að vinna titil með svona frammistöðu. Það er ekki séns að þeir geti það,“ sagði hann enn fremur.

Staðan var þó betri á markvörðum Selfyssinga í fyrra en samt komust þeir ekki í lokaúrslitin þá. Sérfræðingar þáttarins segja að þá sé ekki hægt að reikna með því að þeir fari lengra í ár.

„Þeir þurfa meira en 30 prósenta markvörslu ætli þeir sér að gera sér einhverja von um að vinna titilinn. Helst komast nær 40 prósentunum,“ sagði Sebastian.

Gunnar Berg Viktorsson hvatti Selfyssinga til að hringja í Sebastian til að fá hann til að þjálfa markverðina sína, enda býr Sebastian á Selfossi. Sjálfur gaf hann ekki mikið út á það en sagði að líklega væri betra að hann myndi sjálfur bara spila í marki Selfyssinga.

„En nei, ég er reyndar skráður í Þrótt í Vogum,“ sagði hann í léttum dúr.

Innslagið má sjá allt efst í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×