Útvarpsráð hlýtur að grípa inní
„Þetta hryggir mig og særir meira en orð fá lýst,“ segir Ívar meðal annars í pistli sínum: „Því vil ég biðla til velvildar þinnar og virðingu gagnvart okkur sem viljum njóta góðrar tónlistarskemmtunar án þess að draga pólitík inn í þessa miklu gleðistund. Í gegnum tíðina höfum við séð þjóðir vera í pólitísku reiptogi undir fána ESC, en það hefur mér og ótalmörgum Íslendingum fundist sorglegt. Það varpar óþægilegum skugga á skemmtunina.“„Tek undir þetta. Kærleikurinn á að sigra, hatursfullir trúðir eiga ekki að fá að eyðileggja þessa keppni. Þeirra framlag brýtur nú þegar siðareglur keppninnar, af hverju voru þeir þá valdir í undankeppnina? Útvarpsráð hlýtur að grípa hér inn í og vísa Hatara úr keppninni, annað væri óverjandi.“
Hallgrímur varar við Hatara
Þeir sem eru einlægir í aðdáun sinni á Eurovisionkeppninni og vilja að hún fari fram eftir áður viðurkenndum leiðum hrylla sig beinlínis vegna þátttöku Hatara. Hallgrímur Óskarsson, verkfræðingur og tónlistarmaður, er einn þeirra. Hallgrímur hefur oft sent lög í keppnina. Hann tjáir sig um þetta óvænta framlag á Facebooksíðu Eiríks Guðmundssonar útvarpsmanns. Og segir áhyggjufullur:„Það eru nefnilega engin merkileg skilaboð eða tilvitnanir í þessu lagi sem Evrópa hefur nokkurn áhuga á. Flutningurinn er slakur og lagið líka. Keisarinn er ekki í neinum fötum var sagt einu sinni. Það á við nú.“

Hatari með sigurstranglegt lag
Og líklega hafa þeir sem telja Hatara-atriðið vera hina mestu svívirðu og koma óorði á keppnina hafa fyllstu ástæðu til að óttast. Einn helsti Eurovisionsérfræðingur þjóðarinnar er Jóhannes Þór Skúlason. Hann fylgist grannt með gangi mála í öllu því sem við kemur þessari umdeildu keppni.„Það athyglisverðasta við Hatrið mun sigra með Hatari er að það er alveg sama hvar maður ber niður í erlendu júrónördamiðlunum, eða á samfélagsmiðlum, viðbrögðin eru alveg svakalega jákvæð. Fólk bara elskar þetta lag og performansið og vídeóið og allt. Jafnvel á kommentakerfi Youtube, sem alla jafna er ein dýpsta ruslakista internetsins, prumpa menn glimmeri. Það er mjöööööög áhugavert mál,“ segir Jóhannes Þór og víst er hann veit hvað klukkan slær þegar þessi keppni er annars vegar.
Uppfært 15:40
Í fyrri útgáfu þessarar fréttar var titill hljómsveitarinnar ekki fallbeygður. Í nafni samræmis hefur það nú verið gert og hefur fréttin verið uppfærð.