Hópi fréttamanna frá bandarísku sjónvarpsstöðinni Univision verður vísað frá Venesúela eftir að honum var haldið í skamman tíma í forsetahöllinni. Nicolas Maduro, forseti, er sagður hafa reiðst við spurningar sem fréttamaður stöðvarinnar bar upp við hann.
Univision er spænskumælandi sjónvarpsstöð. Jorge Ramos, einn reyndasti fréttamaður stöðvarinnar, fékk viðtal við Maduro í forsetahöllinni í gær. Stöðin segir að Ramos og fimm manna tökuliði hafi verið haldið í meira en tvær klukkustundir í Miraflores-höllinni eftir að Maduro lýsti óánægju með spurningarnar. Ramos sagði að hópsins hefði beðið vopnaðir leyniþjónustumenn þegar hann kom aftur upp á hótelið sitt.
Reuters-fréttastofan segir að Ramos hafi spurt Maduro um skort á lýðræði í Venesúela, pyntingar á pólitískum föngum og mannúðarneyðarástand í landinu. Maduro hafi stöðvað viðtalið þegar Ramos sýndi honum myndband af ungu fólki að borða aftan úr ruslabíl.
„Þeir lögðu hald á allan búnaðinn okkar. Þeir eru með viðtalið,“ sagði Ramos við fréttamenn. Þeim hefði verið sagt að þeim yrði vísað úr landi í dag.
Upplýsingamálaráðherra Venesúela segir að ríkisstjórnin hafi tekið við hundruðum fréttamanna í forsetahöllinni en að hún hafi ekki verið tilbúin að líða „ódýrar sýningar“ sem hafi verið settar á svið með hjálp bandaríska utanríkisráðuneytisins.
Maduro hefur sakað Bandaríkjastjórn um að leggja á ráðin um valdarán í landinu. Efnahagur Venesúela er rjúkandi rúst en ríkisstjórn Maduro hefur reynt að koma í veg fyrir að sendingar á neyðargögnum frá erlendum ríkis berist inn í landið. Hersveitir hans hafa meðal annars skotið á stjórnarandstæðinga.
Bandarískum fréttamönnum vísað frá Venesúela
Kjartan Kjartansson skrifar
