Bardagakvöld Invicta mun fara fram þann 3. maí en fyrirkomulagið er óhefðbundið. Átta bardagakonur munu berjast í útsláttarkeppni þar til ein stendur eftir. Fari Sunna alla leið gæti hún þurft að berjast þrisvar um kvöldið. Hún kvartar ekki yfir því enda verið frá í næstum því tvö ár vegna meiðsla.
„Þetta eru hörkunaglar sem ég er að fara á móti. Ég hlakka mikið til að spreyta mig á móti þeim og þetta eru mjög verðugir andstæðingar. Ég hlakka mikið til að fá að taka aðeins í þær,“ segir Sunna ákveðin og augljóslega mjög spennt.
Í átta liða og undanúrslitunum er aðeins keppt í eina lotu en úrslitabardaginn verður þrjár lotur. Það er ýmislegt gert til þess að stuttu bardagarnir verði enn skemmtilegri en ella.
„Það er ætlast til að við klárum bardagana og það verða verðlaun fyrir þær sem klára. Sú sem klárar sinn bardaga á stystum tíma fær að velja sér næsta andstæðing. Það eru verðlaun út af fyrir sér og þetta er rosalega spennandi. Þær eiga allar eftir að koma brjálaðar inn og þetta verður þvílík veisla.“
Andstæðingar Sunnu þetta kvöld eru allar með meiri reynslu en hún og þar af koma þrjár úr UFC. Okkar kona óttast það ekkert að verkefnið sé of stórt.
„Þetta er stærsta tækifærið mitt hingað til og stærsta bardagakvöld sem ég hef tekið þátt í. Ég hef tekið þátt í MMA og glímumótum þar sem ég keppi nokkra daga í röð. Ég ætla að gefa allt í þetta og stefni á að standa uppi sem sigurvegari. Ég hef gert það áður og ætla að gera það aftur núna.“