Erlent

Mannskæðir skýstrokkar gengu yfir í Alabama

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Eyðileggingin er mikil.
Eyðileggingin er mikil. AP/WKRG-TV
Að minnsta kosti tuttugu og þrír eru látnir í Alabamaríki í Bandaríkjunum eftir að skýstrokkar gengu yfir austurhluta ríkisins. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka en björgunaraðgerðum var hætt í nótt sökum myrkurs. Börn eru á meðal látinna.

Óljóst er hversu margir eru sárir en yfirvöld hafa lokað svæðinu sem verst varð úti, í Lee sýslu. Skýstrokkarnir voru óvenjuöflugir og náði vindhraðinn allt að 266 kílómetra hraða á klukkustund í verstu hviðunum. Þeir skildu eftir sig slóð eyðileggingar sem var að minnsta kosti áttahundruð metra breið.

Um fjögur þúsund manns eru án rafmagns í ríkinu og af þeim eru um tvö þúsund í Lee sýslu. Spáð er kuldakasti á svæðinu og er búist við að hitastigið nálgist frostmark í sýslunni í dag.

Svo virðist sem fleiri hafi látið lífið vegna skýstrokka nú í Lee sýslu, en dóu allt árið af þeirra völdum í fyrra. Donald Trump Bandaríkjaforseti minntist hinna látnu á Twitter-reikningi sínum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×