Stuðlarnir breytast
Nú æsast leikar heldur betur fyrir stóru stundina, úrslitin í Söngvakeppninni sem verða á morgun. Þar ræðst hver verður fulltrúi Íslands í Eurovision sem fram fer í maí í Tel Aviv í Ísrael. Nú hafa veður skipast í lofti.Vísir greindi frá því fyrir um viku að veðmálafyrirtækið Betsson meti það svo að Hatari sé með sigurstranglegasta lagið. Sérfræðingar Betsson gáfu Hatara lágan stuðul eða 1,6 sem þýðir þá einfaldlega að vilji einhver veðja á sigur þeirra og leggi þúsund krónur undir í því veðmáli, og sú verður raunin, þá fær viðkomandi 1.600 krónur til baka. Flóknara er það ekki. Þeim mun hærri stuðull, þeim mun ólíklegra er það metið að sá sigri.

Enn telst Hatari með sigurstranglegasta lagið þó stuðullinn hafi hækkað eilítið eða upp í 1,75. Friðrik Ómar var upphaflega metinn með stuðulinn 2,2 en hann er nú kominn með stuðul sem þýðir að færri hafa trú á sigri hans en sérfræðingar Betsson töldu: Friðrik Ómar er nú með 3,5 í stuðul. Og það sem meira er, jöfn honum er Kristina Skoubo sem einnig er komin með stuðulinn 3,5 en hún var áður með stuðulinn 7.
Hera og Tara reka lestina
En talsvert færri en sérfræðingar Betsson telja svo að þær Hera Björk og Tara Mobee muni blanda sér í slaginn. Hera, sem var með 8 í stuðul er nú komin í 12 og Tara sem var með 15 er með 25 sem þýðir að fáir gera ráð fyrir því að hún muni sigra í keppninni.Valli Sport er veðraður Eurovision-jaxl. Hann hefur tekið þátt í keppninni árum saman og þá sem umboðsmaður og agent. Hann hefur oftast undanfarin árin verið með skjólstæðinga í keppninni.

Ýmislegt vinnur með Kristinu á lokasprettinum
„Já, til dæmis má nefna könnun sem Bylgjan gerði, þar sem Kristina mældist óvænt í efsta sæti; 27,1 prósent meðan Hatari var með 27 prósent. Þannig að það er enginn í dag með yfirburði og stefnir í spennandi keppni hverjir fara í þessi tveggja manna úrslit. Og spennandi verður svo að sjá hver vinnur það einvígi. Því það er enginn með yfirburði.“Valli er spenntur fyrir úrslitakvöldinu á morgun og telur að þetta muni snúast um dagsformið; hver flytur sitt lag best. Og eitt er að sigra í keppninni annað er einvígið. Reyndar hafa verið uppi kenningar um að lagið sem lendi í öðru sæti hafi átt meiri möguleika í einvíginu en reglum hefur nú verið breytt og taka keppendur með sér þau stig sem þeim tókst að safna saman í keppninni sjálfri í einvígið.
Þá er vert að nefna í þessu samhengi að Finnski Eurovision-sérfræðingurinn Thomas Lundin telur að baráttan um sigur í Söngvakeppninni á morgun muni standa á milli lags Hatara og lags færeysku söngkonunnar Kristinu Skoubo. Ef svo fer að Kristina fari með sigur yrði það í fyrsta sinn sem lag sem kemst í úrslitakvöld Söngvakeppninnar fyrir tilstilli framkvæmdastjórnar Söngvakeppninnar, en hún er svokallað „wild card“ eða „eitt lag enn“, hafa sigur í keppninni.
Uppfært 09:40
Enn breytast stuðlarnir, eftir að þessi frétt fór í loftið og nú er staðan sú á Betsson að Kristina þykir líklegri til að etja kappi við Hatara en Friðrik Ómar. Hún er nú komin með stuðullinn 2,85 meðan Friðrik Ómar er með 3,5.