Handbolti

Rifjaði upp Tasmaníudjöfulinn og kallar eftir gömlu geðveikinni í Mosfellsbænum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Kristinn Þórsson.
Gunnar Kristinn Þórsson. Vísir/Bára
Jóhann Gunnar Einarsson tók yfir Seinni bylgjuna í smá tíma í gær og reyndi þar að kveikja í sínum gömlu félögum úr Mosfellsbænum.

Tómas Þór Þórðarson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar, kynnti Jóhann Gunnar inn og setti síðan myndband í loftið.

„Tímabilið 2014 til 2015. Ég var þarna í Aftureldingu og þetta var gert fyrir hvern einasta leik,“ sagði Jóhann Gunnar.

Jóhann Gunnar hafði tekist að grafa upp gamalt myndband frá undirbúningi leikmanna Aftureldingar fyrir leik í Olís-deildinni. Gunnar Kristinn Þórsson, leikmaður Aftureldingar, sést þar berja kjark í sína menn sem fengu á móti að slá í kassann á honum á leið hans til baka.

„Ég fór aðeins að hugsa og hef verið að vinna í því að fá þetta myndband. Mér finnst svo lítið vanta upp á hjá Aftureldingu til að þeir geti verið í þessum topp fjórum. Þeir eru í jafnteflum og hafa ekki verið nógu stöðugir,“ sagði Jóhann Gunnar.

Jóhann Gunnar fór að rifja upp þetta lið frá 2014-15 til að finna út hvað vantar í lið Mosfellinga í dag.

„Þetta tímabil var einhver geðveiki hjá mörgum og sérstaklega hjá þessum manni sem þið sáuð þarna. Fyrst fannst manni þetta bara kjánalegt og hann var þarna alveg trylltur gaur sem við kölluðum Tasmaníudjöfulinn. Svo varð hann vinsælasti leikmaður deildarinnar. Krakkar vildu vera eins og hann,“ sagði Jóhann Gunnar.

Mér finnst þetta vanta í Aftureldingu til þess að þeir geti verið meistarakandídatar,“ sagði Jóhann Gunnar.

Það má sjá „yfirtöku“ Jóhanns Gunnars á Seinni bylgjunni hér fyrir neðan.



Klippa: Tasmaníudjöfulinn og gamla geðveikin í Mosfellsbænum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×