Bæjarráð Seltjarnarnessbæjar hefur samþykkt erindi félagsmálaráðuneytisins um að bærinn taki við fimm flóttamönnum frá Úganda síðar á þessu ári. Þetta er í fyrsta skipti sem Seltjarnarnesbær tekur við flóttafólki.
Í tilkynningu frá bæjarfélaginu kemur fram að flóttafólkið sé nú statt í flóttamannabúðum í Kenía. Móttakan sé liður í ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að bjóða allt að 75 flóttamönnum til landsins á þessu ári, annars vegar hinsegin flóttafólki frá Kenía og hins vegar sýrlensku fólki í Líbanon.
Bæjarráðið fól Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra að undirbúa komu fólksins, meðal annars með því að gera samning við ráðuneytið um nauðsynlega þjónustu og aðstoð, leita eftir húsnæði fyrir fólkið og ráða verkefnastjóra. Verkefnastjórinn á að hafa umsjón með móttöku flóttafólksins og vera tengiliður við ráðuneytið og Rauða krossinn sem verður til aðstoðar í málum þess.
Hópurinn er sagður fá fræðslu um íslenskt samfélag áður en hann kemur til landsins og nákvæm tímasetning á komu hans sé unnin í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Seltjarnarnes tekur við flóttamönnum í fyrsta sinn
Kjartan Kjartansson skrifar
