Það hefur snjóað duglega í Fnjóskadal undanfarna daga. Heimilisfólkið á Brúnagerði fór ekki varhluta af því eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Á Brúnagerði er starfræktur húsdýragarðurinn Daladýrð þar sem gefur að líta öll helstu húsdýr, kinda, hesta, geitur og grísi svo dæmi séu tekin. Þegar komið var út í gærmorgun hafði hins vegar snjóað svo mikið að inngangnum að útihúsinu að ekki var hægt að komast inn húsið til þess að fóðra dýrin.
Guðbergur Egill Eyjólfsson, bóndi á Brúnagerði og félagar, brugðu það á það ráð að grafa snjógöng til þess að komast að dýrunum. Þeir létu ekki þar við sitja og útbjuggu einnig laglegt snjóhús, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Í samtali við Vísi segir Guðbergur að ekki hafi verið neitt annað í stöðunni en að moka sig inn í húsið, enda þurfti að fóðra dýrin. Hann og kona hans, Birna Friðriksdóttir, hafi hins vegar gengið aftur í barndóm við moksturinn og gert forláta snjóhús í leiðinni, á tveimur hæðum, hvorki meira né minna.
Hér að neðan má sjá myndir af göngunum og snjóhúsinu.
Grófu snjógöng til þess að komast að dýrunum
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
