Erlent

Ástralir undirbúa sig undir tvo fellibylji á sama tíma

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Gervihnattamynd sem sýnir fellibylinn Trevor nálgast Queensland í norður Ástralíu.
Gervihnattamynd sem sýnir fellibylinn Trevor nálgast Queensland í norður Ástralíu.
Gert er ráð fyrir að tveir fellibyljir, Trevor og Veronica, muni valda miklu tjóni á norður- og norðvesturströnd Ástralíu á næstu dögum. Þetta er í annað sinn síðan mælingar hófust sem tveir fellibyljir skella á landinu á sama tíma. Þúsundir Ástrala hafa yfirgefið heimili sín vegna byljanna tveggja.

Fellibylurinn Trevor skall á norðurströnd landsins í morgun. Við komu til landsins var Trevor skilgreindir sem stormur í fjórða flokki. Honum fylgdi hellidemba og vindar sem náðu allt upp í 250 kílómetra hraða á klukkustund, eða um 70 metrum á sekúndu.

Stuttu eftir landtöku var Trevor færður niður í þriðja flokks storm en yfirvöld hafa ítrekað að enn geti stafað mikil hætta af honum, þar sem mikil flóð gætu fylgt honum. Talið er að regnið sem fylgir bylnum jafngildi því sem alla jafna rignir á einu ári í Ástralíu.

Fólk sem býr á þeim slóðum sem gert er ráð fyrir að Trevor fari yfir hefur verið flutt á öruggan stað og býr nú í tjaldbúðum í bæjunum Darwin og Katherine.

Veronica skellur á seinna um helgina

Gert er ráð fyrir að hinn fellibylurinn, Veronica, taki land á norðvesturströnd Ástralíu seint í dag eða snemma á morgun.

Búist er við að bylurinn komi til með að hafa snarpar vindhviður í för með sér og sérfræðingar óttast að veðurofsinn muni hafa „alvarleg áhrif.“





Á námubænum Port Headland, þar sem talið er að Veronica muni fara fyrst yfir, eru hillur stórmarkaða tómar þar sem íbúar hafa hamstrað mat til að undirbúa sig undir inniveru næstu dagana.

Camilo Blanco, bæjarstjóri bæjarins hefur þegar varað íbúa við „þessum hrikalega veðuratburði“ og hafa margir brugðið á það ráð að stafla sandpokum upp fyrir utan heimili sín til að verja þau.

„Bindið niður eigur ykkar í garðinum, farið í næsta hús og athugið hvort nágrannar ykkar séu undirbúnir,“ er haft eftir Blanco.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×