Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR sagði verkfallið sögulegt í samtali við fréttastofu, enda væri þetta fyrsta verkfall VR frá árinu 1988.
Næsta verkfall er fyrirhugað tveggja daga verkfall í hótelum og rútufyrirtækjum 28. Og 29. Mars næstkomandi. Fleiri aðgerðir hafa verið samþykktar í atkvæðagreiðslum félaganna og munu þær vera á þennan hátt.
• 3.-5. apríl (3 dagar)
• 9.-11. apríl (3 dagar)
• 15.-17. apríl (3 dagar)
• 23.-25. apríl (3 dagar)
• 1. maí (þangað til verkfallinu er aflýst)
Aðgerðir höfðu áhrif á starfsemi hótela og rútufyrirtækja
Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar fylgdist vel með verkfallinu í gær og má sjá Verkfallsvakt 22. mars hér.Verkföllin höfðu einhver áhrif á rekstur rútufyrirtækja og hótela í dag. Sérferðir voru felldar niður og stjórnendur gengu í þrifin á hótelum, í kvöldfréttum Stöðvar 2 kom fram að rúmlega tveir þriðju starfsmanna Hótel Sögu hafi tekið þátt í verkfallsaðgerðum í dag.
Hótel lokuðu fyrir bókanir fyrir þessa helgi og dagana í kring. Páll Lárus Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Hótel KEA, sagði aðgerðirnar í dag hafa áhrif á fimm daga.
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, sagði verkfallið ekki hafa haft nein áhrif á starfsemi fyrirtækisins í samtali við fréttastofu um klukkan 10 í morgun, Björn sagði þó í kvöldfréttum Stöðvar 2 að vegna aðgerðanna hafi Kynnisferðir lagt áherslu á að halda flugrútunni gangandi og hafi því dregið úr annarri þjónustu.
Verkfallsvörðum var meinaður aðgangur á hótelið Reykjavík Natura í þó nokkurn tíma, en Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar sagðist ekki fá góða tilfinningu þegar tekið væri á móti verkfallsvörðum með þessum hætti.
Sólveig fullyrti einnig að verkfallsbrot hafi verið framin á City Park hótelinu.
Guðmundur Baldursson, einn verkfallsvarða Eflingar, fylgdist með akstri rútubílstjóra frá BSÍ til Keflavíkur í dag. Guðmundur sagði bílstjórana fremja augljós verkfallsbrot, þeir hafi sumir hvorki sagt til nafns né gefið upp stéttarfélög sín í samtölum við verkfallsverði.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var birt myndskeið, sem vakið hefur athygli. Myndskeiðið sem tekið var upp á BSÍ fyrr í dag sýndi samtal verkfallsvarða og rútubílsstjóra.