Aðspurð hvort funda eigi í dag, á verkfallsdegi, segist hún ekki hafa fylgst með tölvupóstinum sínum en hún viti ekki til þess að það hafi verið boðað til fundar. Henni finnst þó mjög líklegt að deiluaðilar hittist á morgun.
Jóhann K. Jóhannsson, fréttamaður, ræddi við Sólveigu Önnu í beinni útsendingu á Vísi skömmu fyrir klukkan 10 í morgun.
Þá var hún ásamt félögum sínum í Eflingu í kröfustöðu fyrir utan Hús atvinnulífsins en í morgun hófst verkfall rúmlega 2000 félagsmanna í Eflingu og VR. Verkfallið nær til hótelstarfsmanna og hópferðabílstjóra.
„Ég bara vona sannarlega að þessar manneskjur sem sitja hér inni sjái okkur og heyri í okkur, sýni samningsvilja og átti sig á því að það er löngu komið nóg. Það er löngu kominn tími til þess að þær manneskjur sem sannarlega hafa keyrt áfram gróðann og góðærið á síðustu árum fái loksins að uppskera það sem þau eiga skilið fyrir alla sína miklu vinnu,“ segir Sólveig Anna.
Efling verður með dagskrá fyrir hópferðabílstjóra í Vinabæ í dag sem hefst klukkan 13 og stendur fram eftir degi en húsið opnar klukkan 12. Þá fara hótelstarfsmenn áfram um bæinn og verða í kröfustöðum við hótel þar sem starfsmenn hafa lagt niður störf.
Spurð út í það hvernig sé með aðra hópferðabílstjóra sem séu í öðrum stéttarfélögum og hvort að þeim sé heimilt að keyra segir Sólveig Anna að Efling líti svo á að þeim sé það ekki heimilt.
„Við lítum svo á að það sé ekki heimilt. Ég vil bara hvetja þá til að sýna samstöðu með þessum aðgerðum og sinna ekki akstri og ekki síst í ljósi þess að ef og þegar við vinnum þessa baráttu okkar þá munu þeir náttúrulega njóta góðs af því líka.“
Sólveig Anna segir að Efling sinni verkfallsvörslu víða í dag.
„Við hér erum ekki í því að stöðva rútur. Við aftur á móti áttum orð við þá bílstjóra sem við höfum mætt og hvöttum þá einfaldlega til þess að gera ekki það sem þeir voru að gera.“
Fréttin hefur verið uppfærð.