Um 6.000 gistieiningar eru nú til leigu á Airbnb á Íslandi. Sölvi Melax, formaður félags fólks með íbúðir í skammtímaleigu, segir gjaldþrot WOW air hafa haft mikil áhrif á markaðinn.
„Þetta hefur allavega mjög mikil áhrif til skamms tíma og yfir helgina núna. Airbnb hefur verið að grípa inn í og endurgreiða bókanir þegar ferðamenn hafa ekki geta fundið sér nýtt flug á svona einhverjum venjulegum kjörum,“ segir Sölvi.
Eitthvað sé um afbókanir til lengri tíma en klárlega séu áhrifin mest nú næstu daga.

Þá velti það á þeim skilmálum sem leigusalinn hefur valið, hvort hann fái greitt.
„Algengustu skilmálarnir eru þeir að þegar það er afbókað meira en sextíu daga fram í tímann þá færðu fimmtíu prósent borgað út. Síðan ef það er innan við sextíu daga þá fær leigusalinn allt, hvort sem leigjandinn kemur eða ekki,“ segir Sölvi og bætir við að þó að beina tjónið sé kannski ekki mikið til lengri tíma þá sé gjaldþrotið ákveðin skellur.
„Auðvitað, ef ferðamönnum fækkar þá eru færri að leita sér að gistingu og þar af leiðandi munu íbúðirnar bókast minna,“ segir Sölvi.