Minnst 2.800 manns hafa flúið undan átökum nærri Trípólí, höfuðborg Líbíu. Einhverjir borgarar eru þar að auki fastir á átákasvæðum eftir að vopnaðar sveitir hliðhollar hershöfðingjanum Khalifa haftar hófu sókn gegn höfuðborginni í síðustu viku. Sveitir hans gerðu loftárás á eina virka flugvöll Trípólí í dag en árásin hefur verið fordæmd af Sameinuðu þjóðunum.
Talsmaður Haftar segir árásina ekki hafa beinst gegn almennum borgurum. Heldur hafi hún beinst gegn orrustuþotu sem var á flugbraut flugvallarins.
Reuters segir átökin ógna áætlunum Sameinuðu þjóðanna um að boða til kosninga og binda þannig enda á deilur ráðandi fylkinga í landinu. Þar að auki gætu átökin hægt á útflutningi olíu, og hafa þau þegar leitt til hækkunar á mörkuðum, og aukið flæði farand- og flóttafólks frá Líbíu til Evrópu.
Tugir hópa eru starfandi í Líbíu en tveir eru stærstir. Þeir eru ríkisstjórnin sem Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna. Hún var mynduð árið 2015 en hefur átt erfitt með að ná stjórn á landinu.
Hinn hópurinn er LNA sem Haftar stjórnar. Hann var á árum áður hershöfðingi fyrir Muammar Gaddafi, einræðisherra, og hjálpaði honum að ná völdum árið 1969. Hann lenti þó í ónáð og þurfti að flýja til Bandaríkjanna. Haftar sneri aftur árið 2011 og tók þátt í baráttunni gegn Gaddafi. Hann er nú studdur af nokkrum ríkjum eins og Rússlandi og Sádi-Arabíu, samkvæmt Guardian, og stjórnar í raun stórum hluta landsins í austri og suðri.
Íbúar Trípólí sem ekki hafa haft tök á því að flýja segjast lafandi hræddir vegna átakanna.
Þúsundir flýja undan átökum í Líbíu
Samúel Karl Ólason skrifar
