Handbolti

Einar Andri: Arnór er frábær markvörður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Andri og félagar unnu langþráðan sigur í kvöld.
Einar Andri og félagar unnu langþráðan sigur í kvöld. vísir/eyþór
Það blés ekki byrlega fyrir Aftureldingu í upphafi seinni hálfleiks gegn Fram í kvöld. Mosfellingar lentu sex mörkum undir og voru komnir með bakið upp við vegg. En þá loksins byrjuðu þeir að spila almennilega og nógu vel til að landa sigri, 29-26.

„Fyrst og síðast breyttist hugarfarið. Menn fóru að hafa gaman að þessu. Við fengum ekki neina markvörslu í fyrri hálfleik og vörnin var heldur ekki góð. Svo small það og þá kom þetta. Við höfum verið í brekku og kannski hefur það haft einhver áhrif,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir leik.

Mosfellingum hefur ekki gengið vel að undanförnu og voru án sigurs í fimm leikjum fyrir leikinn í kvöld. Einar Andri segir að í ljósi þess hafa verið sérstaklega mikilvægt að klára leikinn í kvöld.

„Engin spurning. Við höfum spilað vel í mörgum leikjum eftir jól þótt uppskeran hafi verið rýr. Við höfum átt mjög erfiða leiki en þetta gefur okkur sjálfstraust. Það hefur vantað upp á það,“ sagði Einar Andri.

Hann var að vonum ánægður með frammistöðu Arnórs Freys Stefánssonar í marki Aftureldingar í seinni hálfleiknum. Þá skellti hann í lás og varði rúman helming þeirra skota sem hann fékk á sig.

„Þegar vörnin hefur verið góð hefur hann skilað 40% markvörslu. Það er mín og strákanna í vörninni að sjá til þess að hún virki. Arnór er frábær markvörður, einn sá allra besti í deildinni og hefur sýnt það í allan vetur,“ sagði Einar Andri að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×